Mín yndislega, fallega, hjartahlýja og dásamlega dóttir Amelía Björt varð átta ára í gær, þann 9. janúar. Það stóð ekki á svörunum þegar ég spurði hvernig þema hún vildi í afmælinu sínu: Einhyrningar og regnbogar.

Ég og Amelía höfum gaman að því að skoða kökumyndbönd á YouTube fyrir svefninn og því var hún ekki lengi að finna afmæliskökuna – hina geysivinsælu einhyrningaköku sem er afar vinsæl í afmælum út um allan heim um þessar mundir. Einhyrningar eru líka svakalega inn hjá krökkum í dag – ekki spyrja mig af hverju. Ætli það sé ekki dulúðin, töfrarnir og ævintýraleg fegurð?

Það var í raun það eina sem Amelía bað um, sem sagt þessi einhyrningakaka. Reyndar vildi hún líka fá sykurpúða með hvítu súkkulaði, en þá hafði ég gert áður fyrir Frozen-afmæli hjá systur hennar í fyrra. Þið getið séð myndir og uppskriftir frá því afmæli hér.

Þannig að ég fékk nokkuð frjálsar hendur við að finna alls kyns bakkelsi sem passaði inní þemað og kynna það fyrir afmælisbarninu. Hún þurfti að sjálfsögðu að vera með í öllum ákvarðanatökum!

Ég ákvað að afmæliskakan yrði það eina sem myndi túlka einhyrninga afskaplega bókstaflega. Hitt kruðeríið yrði meira í regnbogaþemanu, en þó sveipað skemmtilegum ævintýrablæ þannig að það gæti alveg átt heima í einhyrningaveröld. Í stuttu máli var þetta svakalegt litafyllerí! Það er eitthvað sem ég elska, enda á ég heila skúffu fulla af matarlitum og nýti hvert tækifæri til að nota þá. Og ef þið viljið gera svona einhyrninga köku þá mæli ég með því að þið sláið inn Unicorn Cake á YouTube og horfið á nokkur svoleiðis myndbönd. Þetta hér er til dæmis mjög gott.

Auk einhyrningakökunnar títtnefndu, buðum við uppá regnboga bollakökur sem Amelía skreytti af stakri list, regnboga ostaköku, glimmer Rice Krispies-bita, regnbogalitaðar Pretzel-kringlur og skinkuhorn. Uppskrift að Pretzel-kringlum getið þið fundið hér, en ég skipti deiginu í fjóra bita og litaði hvern bita með matarlit áður en ég sauð og bakaði kringlurnar.

Ég vona að þið njótið þessara litríku mynda og uppskrifta og hver veit, kannski veita þær einhverjum innblástur?

Til hamingju með afmælið Amelía – þú ert best!

Einhyrningar í aðalhlutverki í átta ára afmæli
Hráefni
Rice Krispies-bitar einhyrningsins
Regnboga bollakökur
Einhyrninga kaka
Smjörkrem (fyrir bæði bollakökur og einhyrninga köku)
Skinkuhorn einhyrningsins
Regnboga ostakaka
Leiðbeiningar
Rice Krispies-bitar einhyrningsins
  1. Takið til ílangt form, sem er sirka 33 sentímetrar að lengd. Klæðið það með smjörpappír og smyrjið vel.
  2. Takið til stóran pott og bræðið smjörið yfir meðalhita. Bætið síðan sykurpúðunum út í og hrærið reglulega þar til sykurpúðarnir eru bráðnaðir og blandan er orðin slétt og felld.
  3. Takið pottinn af hellunni og bætið Rice Krispies saman við. Varúð: Þessi blanda verður svakalega klístruð!
  4. Skellið blöndunni í formið og notið smjörpappírsörk til að þrýsta blöndunni niður í formið og út í alla kanta.
  5. Bræðið hvíta súkkulaðið og hellið því yfir Rice Krispies-dásemdina. Skreytið síðan að vild áður en súkkulaðið harðnar. Ég mæli með að geyma þessa elsku í ísskáp í um klukkustund áður en hún er skorin niður í bita.
Regnboga bollakökur
  1. Hitið ofninn í 175°C og takið til möffinsform.
  2. Blandið þurrefnum vel saman í einni skál og blandið síðan mjólk, olíu, vanilludropum og eggjum vel saman í annarri skál.
  3. Blandið blautefnum varlega saman við þurrefnin þar til allt er blandað saman. Blandið því næst vatninu varlega saman við.
  4. Deilið deiginu, sem er í þynnra lagi, í möffinsformin og bakið í 15-17 mínútur. Leyfið að kólna.
  5. Kökurnar eru síðan skreyttar með smjörkreminu sem þið sjáið hér fyrir neðan en ég notaði bæði blátt og hvítt smjörkrem til að túlka himinn og ský. Síðan keypti ég regnboga hlauplengjur í Hagkaupum og bjó til litla regnboga - eða réttara sagt Amelía sá um það!
Einhyrninga kaka
  1. Takið til tvö form sem eru sirka 18 sentímetrar að stærð, klæðið botnana með smjörpappír og smyrjið formin vel með olíu. Hitið síðan ofninn í 180°C.
  2. Byrjið á því að aðskilja eggin og stífþeyta eggjahvíturnar í tandurhreinni skál.
  3. Hrærið síðan eggjarauðum saman við sykur og vanilludropa þar til blandan er orðin þykk og rjómakennd.
  4. Blandið þá mandarínuberki og -safa saman við. Blandið síðan hveiti og salti varlega saman við með sleif eða sleikju.
  5. Þá blandið þið eggjahvítunum varlega saman við hveitiblönduna með sleif eða sleikju. Hér er einnig hægt að bæta við kökuskrauti, sirka einum bolla, til að gera kökuna enn litríkari.
  6. Deilið deiginu á milli formanna tveggja og bakið í um 40-45 mínútur. Kakan er síðan skreytt með smjörkreminu hér fyrir neðan. Einhyrningahornið bjó ég til úr sykurmassa. Það er gert með því að rúlla lengju sem er þykk á öðrum endanum en þynnist svo smátt og smátt. Lengjunni er síðan vafið uppá prik, en ég vafði minni uppá ágætlega þykkt grillspjót. Ég málaði síðan hornið með gullglassúr sem ég keypti tilbúinn í Hagkaupum. Augun gerði ég með svörtum glassúr úr eggjahvítum og flórsykri.
Smjörkrem (fyrir bæði bollakökur og einhyrninga köku)
  1. Þeytið smjörið í 4-5 mínútur og bætið síðan flórsykrinum saman við.
  2. Bræðið súkkulaðið og blandið því saman við, sem og vanilludropunum. Mjólk eða rjóma er síðan bætt við ef kremið er of þykkt. Með þessu er síðan skreytt eins og vindurinn!
Skinkuhorn einhyrningsins
  1. Hitið mjólkina í örbylgjuofni í um 45 sekúndur, eða þar til hún er volg. Hellið þurrgeri, sykri og salti saman við og látið þetta standa í fimm mínútur.
  2. Blandið síðan gerblöndunni saman við hveiti og smjör. Hnoðið vel og hyljið síðan skálina með hreinu viskastykki og leyfið deiginu að hefast í um klukkustund.
  3. Hitið ofninn í 210°C og klæðið ofnplötur með smjörpappír.
  4. Skiptið deiginu í 6-8 búta. Fletjið út hring úr hverjum bút og skerið hann síðan í 8 jafnstóra þríhyrninga.
  5. Smyrjið smurostinum á breiða endann á hverjum þríhyrning og drissið skinkunni yfir. Rúllið hornunum upp með því að byrja á breiða endanum. Raðið á plöturnar.
  6. Þeytið egg og mjólk eða vatn saman og penslið skinkuhornin með blöndunni. Stráið síðan sesamfræjum yfir þau. Ekki skemmir að drissa rifnum osti yfir líka.
  7. Bakið í 13-16 mínútur eða þar til hornin eru farin að taka góðan lit. Þessi eru bæði dásamleg volg og köld!
Regnboga ostakaka
  1. Þá er komið að ostakökunni sem er líklegast flóknasta kakan á borðinu, þó hún sé alls ekkert flókin!
  2. Takið til hringlaga form, ca 18 sentímetra stórt (má líka vera 20 sentímetra) og klæðið botninn með smjörpappír. Smyrjið síðan formið með smjöri eða olíu.
  3. Hitið ofninn í 160°C. Myljið hafrakexið og blandið því saman við brædda smjörið. Þrýstið blöndunni í botninn á forminu og bakið í 10 mínútur.
  4. Þeytið rjómaostinn vel og blandið honum síðan vel saman við sykurinn.
  5. Blandið síðan hveiti, vanilludropum og rjóma vel saman við.
  6. Blandið eggjunum saman einu í einu þar til allt er vel blandað saman.
  7. Ég skipti deiginu í 6 hluta og litaði hvern hluta með fallegum matarlit. Hlutarnir mega auðvitað vera færri eða fleiri. Fyrsti hlutinn hjá mér var sirka 1 3/4 bolli, sá næsti 1 1/2 bolli og koll af kolli, en seinasti hlutinn var aðeins um 1/2 bolli.
  8. Hellið stærsta hlutanum ofan á botninn. Hellið síðan næststærsta í miðjuna og dreifið aðeins úr honum en passið að hann hylji ekki hlutann sem fór fyrst ofan í formið. Þetta gerið þið koll af kolli með alla hlutana þar til allir litirnir eru komnir í formið.
  9. Kakan er síðan bökuð í um klukkustund og fimm mínútur. Þá er slökkt á ofninum og hann opnaður lítillega og kakan látin standa í ofninum á meðan hann kólnar í klukkustund. Þá er gott að taka sér hníf í hönd og renna honum meðfram forminu til að losa kökuna frá forminu. Kakan er síðan sett í ísskáp og ekki tekin úr forminu fyrr en hún er orðin alveg köld.

Umsagnir

Umsagnir