Um Blaka

Ég heiti Lilja Katrín Gunnarsdóttir. Ég elska að baka.

Einn daginn hugsaði ég: Hvað ætti ég að taka mér fyrir hendur sem gerði mig virkilega ánægða? Jú, kökublogg. Að baka alls konar kökur, jafnt óvenjulegar og venjulegar, og blogga um það.

Frumlegasta hugmynd í heimi? Nei, ekki svo mjög. En þetta gerir mig ánægða.

Þannig að ég kynni með stolti: blaka.is.

Ekki kíkja inn á síðuna mína ef þið fílið ekki góðar kökur sem eru stútfullar af sykri, smjöri og almennri gleði. Þá verðið þið bara leið.

En ef þið fílið litríkar, flippaðar og gómsætar kökur þá megið þið endilega kíkja við og ég vona að síðan gleðji ykkur.

Blaka opnaði í júní árið 2015, nokkrum dögum áður en ég eignaðist mitt annað barn. Í upphafi var sérstakt þema í hverjum mánuði sem tengdist mánuðinum á einhvern hátt – eða fór bara algjörlega eftir skapinu mínu. Í seinni tíð hef ég farið frá þemapælingunum mínum og bara bakað nákvæmlega það sem mig langaði til að baka hverju sinni.

Síðan ég opnaði hef ég bakað skrautlegar kökur fyrir alls konar fólk og safnað pening fyrir Kraft með því að baka í heilan sólarhring í sérstöku Bökunarmaraþoni á heimili mínu í Kópavogi. Ég safnaði rúmlega hálfri milljón í þessu maraþoni í september árið 2016, sem endaði á því að forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, kíkti í heimsókn og við grétum saman í litla eldhúsinu mínu.

Ég gaf út mína fyrstu bók, Minn sykursæti lífsstíll, árið 2018. Fyrir henni safnaði ég á Karolina Fund og er ég ævinlega þakklát þeim sem styrktu mig að hjálpa mér að láta drauma mína rætast. Bókin er stútfull af gómsætum uppskriftum og ráðum og hef ég birt nokkrar uppskriftir hér á síðunni.

Bakstur er mín hugleiðsla og ég veit fátt meira róandi en að hanga inni í eldhúsi tímunum saman – hvort sem það er til að búa til hlaup, skreyta kreisí kökur eða prófa mig áfram með þúsund og eina uppskrift að smjörkremi.

Endilega hafið samband ef þið finnið ekki það sem þið leitið að á Blaka og ég reyni að gera ykkur glöð. Bakstur á að kæta, hressa og bæta – það finnst mér allavega!

Góðar bakstursstundir,

Lilja Katrín Gunnarsdóttir

Smellið hér til að skoða allar uppskriftirnar mínar.

X