Ég fékk mjög skemmtilega bón rétt fyrir jól – að hanna piparkökuhús til að taka þátt í heimsmeistaramótinu í piparkökuhúsagerð sem fór fram í Hörpu í gær, 28. desember. Var keppning hluti af tónlistarhátíðinni Norður & Niður sem haldin var á vegum hljómsveitarinnar Sigur Rósar.

Það var fyrirtæki í Reykjavík sem bað mig um að hanna verk til að taka þátt í keppninni. Og ég ætla að vera alveg hreinskilin – ég var mjög efins um þetta verkefni og hvort ég ætti að segja já. Þó ég sé ágætlega lunkinn bakari og elski að prófa eitthvað nýtt þá verður sjálfstraustið mitt afar smátt í piparkökhúsagerð. Ég hef aldrei búið til mitt eigið piparkökuhús heldur alltaf keypt það tilbúið til samsetningar og nánast grátið af pirringi þegar ég reyni að splæsa því saman.

En það var eitthvað við þessa bón sem togaða í mig. Ég fengi frjálsar hendur og mætti búað til eins flippað verk og ég vildi í þemanum Eldur og Ís. Þannig að ég sagði já! Sló til. Henti mér ofan í djúpu laugina.

Mig langar að deila með ykkur ferlinu mínu og þá er kannski best að byrja bara á upphafinu. Ég hugsaði vel og lengi hvað ég ætti að búa til. Eftir miklar pælingar og þrotlausar innblástursmyndir á netinu ákvað ég að búa til skautasvell. Hér má sjá fyrstu teikninguna mína af því:

Piparkökuhús

Ég er ekkert svakalega sleipur teiknari eins og þið sjáið.

Planið var sem sagt að baka risastóra piparköku sem væri 50 sentímetrar á lengd og rúmlega 30 sentímetrar á breidd. Í miðju piparkökunnar væri hringlaga skautasvell og allt í kringum svellið væru ljósastaurar úr nammistöfum. Í kringum skautasvellið væru sölubásar og síðan alls kyns fígúrúr sem segðu mismunandi sögur. Í upphafi ætlaði ég að búa til ljósaseríu á staurana úr lakkrísreimum og Smarties, en það gekk ekki nógu vel upp þannig að ég ákvað frekar að sleppa því en að bjóða upp á eitthvað sem væri illa gert. Þessi teikning var samþykkt af fyrirtækinu sem ég gerði verkið fyrir, þó ég sé arfaslakur teiknari, og því hófst ég handa í miðri jólaösinni.

Ég byrjaði á að baka stóru piparkökuna – grunninn. Þar sem ég á ósköp venjulegan bakarofn þurfti ég að baka hann í tveimur pörtum. Þegar ég var búin að skera út báða helmingana mældi ég fyrir ljósastaurunum, en það voru sirka 10 sentímetrar á milli þeirra. Ég „boraði“ holur þar sem þeir áttu að vera. Þess má geta að ég notaði piparkökuuppskrift móður minnar til að baka allt fyrir þetta verk og var ekki ein einasta piparkaka keypt út í búð. Síðan bjó ég til svellið en það er blátt hlaup með piparmyntubragði. Ég læt uppskrift að því fylgja hér fyrir neðan. Það er ofureinfalt að búa til sitt eigið hlaup en það tekur langan tíma þannig að það var lógískt að byrja á því. Síðan bjó ég til ljósastaurana með því að hita endann á nammistöfunum með kveikjara og þrýsta gulu hlaupi á hann til að búa til ljósaperur. Frekar flott, þó ég segi sjálf frá! Siðan skar ég út hjörtu með gati í til að styðja betur við ljósastaurana. Ég límdi sem sagt hjörtun á piparkökugrunninn með glassúr. Síðan hitaði ég hinn endann á nammistöfunum með kveikjara og þrýsti honum ofan í hjörtun. Þannig stóðu þeir pikkfastir á sínum stað. Mig langar einnig að taka fram að ég bjó til glassúr úr Nesbú-eggjahvítum sem hægt er að kaupa í stórum brúsum og flórsykri. Ég hafði hann í þykkara lagi þannig að hann myndi harðna fljótt og auðvelt væri að skreyta með honum.

Þá var komið að því skemmtilegt – að láta hugann reika um fígúrúrnar og mannvirkin sem áttu að prýða verkið. Ég vildi koma jólatré fyrir einhvers staðar, en það gerði ég með því að skera út mismunandi stórar stjörnur og splæsa þeim saman eins og sést á myndinni hér fyrir ofan. Ég ákvað loks að hafaþ að í miðju skautasvellsins. Síðan skar ég út alls kyns fígúrúr. Og þar sem þetta var skautasvell þurfti ég að finna leið til að búa til skauta og sleða. Því fór ég í heljarinnar innkaupaferð þar sem ég keypti ýmislegt góðgæti og prófaði mig áfram í leit að hinum fullkomnu skautum. Ég fann ílangar ávaxtakaramellur í Hagkaupum og þær höfðu vinninginn. Ég skar þær í tvennt og gat beyglað þær sundur og saman þannig að lítið mál var að búa til skauta.

Svo var komið að því að hanna sölubásana en ég ákvað að hafa tvo. Ég hannaði þá sjálf og mældi út, þar sem ég þurfti mjög ákveðna stærð af básum til að passa inn í verkið. Ég bjó til tvö hús, sem reyndar misheppnuðust í fyrsta sinn þar sem ég mældi aðeins vitlaus. Í annað skiptið tókust þau fullkomlega. Ég ákvað að annar básinn ætti að selja drykki og hinn nammi. Mér fannst einna skemmtilegast að skreyta þá því ég var búin að ákveða að hafa annan frekar lágstemmdan en hinn mjög flippaðan og litríkan. Drykkjarbásinn skreytti ég eins og viðarkofa og límdi saltstangir á allan hringinn. Á þakinu skreytti ég hann síðan með Nóa Kroppi. Nammibásinn var enn þá skemmtilegri en hann skreytti ég með alls kyns litríku nammi. Virkilega girnilegur bás!

Þá tóku öll smáatriðin við til að glæða verkið lífi. Ég bjó til bekk úr piparkökum og sykurpúðum með ástföngnu lesbísku pari. Þau voru með hund í bandi, en þess má geta að dóttir mín sem er sjö ára hannaði hundinn. Hve flottur er hann?! Svo kom maðurinn minn með hugmynd að því að hafa eld í ruslatunnu sem ég auðvitað greip á lofti! Ruslatunnan er úr lakkrísrörum og eldinn bjó ég til með því að bræða gulan og rauðan brjóstsykur í ofni og skera út eldglæður úr því þegar blandan var enn heit úr ofninum. Og fyrst við vorum með eld í ruslatunnu þurfti ég að hafa róna sofandi í eigin ælu rétt hjá honum. Maðurinn minn stakk líka upp á að einn skautakappi hefði runnið rakleiðis af svellinu á ljósastaur og kom það vel út. Hann hjálpaði mér líka að útfæra krakkann sem er að renna sér í snjóskaflinum og lendir hugsanlega beint á kvartetnum sem er að syngja jólalaug við hliðina á honum. Við megum heldur ekki gleyma brúðinni sem var skilin eftir við altarið og er að drekkja sorgum sínum á aftari hluta verksins.

Ég setti allt saman kvöldið fyrir keppni til að allt myndi haldast á sínum stað, enda þurfti ég að koma piparkökuhúsinu frá heimili mínu í Kópavogi og alla leið í Hörpu. Bílferðin var vægast sagt stressandi en minn yndislegi eiginmaður keyrði svo mjúklega að ekki eitt stykki í verkinu hreyfðist úr stað. Geri aðrir betur!

Ég er mjög stolt af þessu verki en því miður vann það ekki í þetta sinn. Ég er samt í skýjunum með að hafa tekið þetta verkefni að mér því þetta var mikil áskorun fyrir mig og reyndi á alla mína baksturshæfileika. Ég lærði alls konar nýja hluti og er strax farin að hlakka til næstu jóla að gera eitthvað skemmtilegt piparkökuverk með börnunum mínum. Núna tek ég fagnandi á móti piparkökuhúsagerð en svitna ekki í lófunum við tilhugsunina.

Áfram ég og áfram piparkökuhús!

 

Hlaup með piparmyntubragði
Hráefni
Leiðbeiningar
  1. Takið til form sem þið ætlið að nota. Ég geri yfirleitt eina uppskrift í stórt, ílangt form sem er sirka 33 sentímetra langt. Í þessu tilviki notaði ég hringlaga form, sirka 20 sentímetra stórt og átti afgangshlaup sem ég setti í minna form. Ef þið viljið nota nokkur minni form fyrir mismunandi brögð, þá mæli ég með því að þið hafið aðstoðarhlaupara þar sem maður þarf að hafa hraðar hendur þegar blandan er tilbúin. Svo er auðvitað líka hægt að nota konfektform. Spreyið bökunarspreyi í formið/n og klæðið helst með smjörpappír.
  2. Takið til vel stóran pott og leggið matarlímsblöðin í hann. Gott er að brjóta þau upp. Hellið kalda vatninu yfir matarlímið og leyfið þessu að liggja í fimm mínútur.
  3. Á meðan sjóðið þið vatnið og hellið því síðan yfir matarlímið. Hrærið vel þar til matarlímið hefur leysts upp.
  4. Blandið sykrinum saman við og hrærið vel.
  5. Setjið pottinn á hellu yfir meðalháan hita. Hrærið stanslaust og náið upp suðu. Lækkið þá hitann eilítið og leyfið þessu að malla í 25 mínútur á meðan þið hrærið stanslaust.
  6. Takið pottinn af hellunni og blandið bragðefni og matarlit saman við. Munið hraðar hendur! Hellið blöndunni í formið/n og kælið í ísskáp í 8 klukkutíma. Varðandi bragðefni þá hef ég keypt fullt af alls konar tegundum í búðinni Allt í köku. Mæli með þeim.
  7. Takið hlaupið úr forminu. Í þessu tilviki skellti ég hlauphringnum beint á piparkökugrunninn en úr þessari uppskrift er líka hægt að búa til nammihlaup sem er frábært í tækifærisgjafir. Þá skerið þið hlaupið í litla bita og veltið þeim upp úr flórsykri eða strásykri og raðið á smjörpappír. Setjið síðan aftur inn í ísskáp yfir nótt og þá er hlaupið tilbúið. Reynið að standast þetta!

Umsagnir

Umsagnir