Brúnkur, eða brownies, eru alveg hrikalega góðar ef maður bakar þær rétt. Kostur við brúnkur er líka að maður þarf ekki að draga fram handþeytara eða hrærivél – maður á alltaf að hræra í þær með handaflinu einu saman.
Galdurinn við að baka ekki aðeins góða brúnku heldur stórkostlega brúnku er annars vegar að hræra hráefnin ekki of lengi saman svo hún verði ekki seig og í öðru lagi að baka hana ekki of lengi en hún á að vera pínulítið blaut. Samt ekki of mikið. Bara örlítið. Þetta er fín lína.
Þessi uppskrift er ofur einföld og hennar helsti kostur er að það er alveg heill hellingur af Mars í henni!
Syndsamlega góðar Mars-brúnkur
|
|
Hráefni
- 180g Mars
- 200g smjör
- 100g dökkt súkkulaði
- 100g suðusúkkulaði
- 65g kakó
- 75g Kornax-hveiti
- 1tsk lyftiduft
- 250g sykur
- 3 stór Nesbú-egg
- 1poki litlir sykurpúðar
Leiðbeiningar
- Hitið ofninn í 170°C og smyrjið 23 sentímetra langt form. Setjið einnig smjörpappír í það og leyfið honum að ná upp á hliðunum svo auðvelt sé að ná brúnkunni úr forminu.
- Skerið niður 90 grömm af Mars-inu og bræðið saman við smjörið, dökka súkkulaðið og suðusúkkulaðið yfir lágum hita. Takið af hellunni og leyfið að kólna aðeins.
- Hellið Mars-blöndunni í skál og bætið sykri, hveiti, kakó og lyftidufti saman við.
- Hrærið eggjunum saman við þar til allt er vel blandað saman.
- Skerið restina af Mars-inu í litla bita og blandið saman við deigið.
- Skellið deiginu formið og bakið í 30 mínútur.
- Takið kökuna út og hellið sykurpúðunum yfir hana. Bakið í 5 mínútur í viðbót eða þar til sykurpúðarnir hafa brúnast.