Þegar ég bjó í Danmörku var órjúfanlegur partur af jólahátíðinni að rölta niður verslunargöturnar og finna ilminn af brenndu möndlunum sem götusalarnir reiddu fram í stórum pottum.

Pottarnir voru bersýnilega komnir til ára sinna og höfðu brennt fleiri möndlur en hægt er að torga um ævina. Allan daginn voru brenndar möndlur í gríð og erg, enda seldust þær eins og…tja…brenndar möndlur.

Nú er liðinn áratugur síðan ég yfirgaf Danmörku og flutti aftur til Íslands. Vissulega hef ég séð möndlusölumann á stangli í miðbæ Reykjavíkur en það er einhvern veginn ekki eins. Í ár ákvað ég að taka loksins skrefið og reyna að endurgera brenndu möndlurnar sem yljuðu mér um hjartarætur í Danmörku og komu mér í jólaskap.

Ég hélt að þetta væri alltof flókið ferli og að ég gæti aldrei endurgert möndlurnar hér heima í litla eldhúsinu í Kópavogi. En viti menn – það tókst svona líka prýðilega.

Það eina sem maður þarf að passa sig á þegar að möndlur eru brenndar er að brenna þær ekki, eins kaldhæðnislega og það hljómar. Því þarf að passa hitann vel, eins og alltaf þegar unnið er með að bræða sykur. Fyrir utan það er þetta alls ekki svo flókið og stór plús er að heimilið fyllist af þvílíkum jólailm að maður getur hreinlega sleppt því að þrífa! Eða svona næstum því.

Ég kynni brenndar möndlur – jólaskap í einum bita!


Ekta brenndar möndlur
Hráefni
Leiðbeiningar
  1. Byrjið á því að blanda 1/3 bolli af sykri saman við vanillusykurinn. Blandið vel saman og setjið til hliðar.
  2. Setjið 3/4 bolla af sykri, vatn og kanil í meðalstóran pott. Blandið saman og setjið svo á hellu yfir miðlungshita. Náið upp suðu í blöndunni.
  3. Blandið möndlunum saman við og hrærið vel. Hækkið hitann næstum því í botn og náið upp góðri suðu á meðan þið hrærið stanslaust í blöndunni. Hér er látið bullsjóða svo vatnið gufi upp. Það tók 5 til 6 mínútur hjá mér.
  4. Þegar að vatnið fer að gufa upp byrja möndlurnar og sykurinn að þorna og storkna. Það er gott. Passið að hræra stanslaust svo þetta brenni ekki við. Þegar að allt vatnið er gufað upp er hitinn lækkaður í miðlungshita, jafnvel aðeins lægri, svo sykurinn brenni ekki.
  5. Nú byrjar sykurinn að bráðna eins og hann á að gera. Hrærið áfram stanslaust þar til um helmingurinn af sykrinum er bráðnaður og sumar möndlurnar orðnar glansandi fínar.
  6. Nú er vanillusykrinum bætt við og þið haldið áfram að hræra. Sá sykur mun einnig bráðna, en möndlurnar eru tilbúnar þegar að þær eru nokkuð glansandi en líka hrjúfar. Þetta tók 4 til 5 mínútur hjá mér.
  7. Potturinn er tekinn af hellunni og möndlunum skellt á bakka, plötu eða smjörpappírsörk og þeim leyft að kólna. Sumar möndlurnar munu vera festar saman en það er lítið mál að losa þær þegar að þær kólna.

Umsagnir

Umsagnir

This entry was posted in Konfekt.