Gleðilegt nýtt ár kæru Blakarar og takk fyrir það gamla. Nú er hálft ár síðan Blaka opnaði, nokkrum dögum áður en ég átti mitt annað barn. Á þessum stutta tíma hafa viðtökurnar sem ég hef fengið verið í einu orði sagt stórkostlegar og ég er ævinlega þakklát fyrir það að þið hafið gaman að þessum uppskriftum mínum og þorið að taka smá áhættur í eldhúsinu.

Blaka er nú orðið að þriðja barninu mínu enda líður ekki sá dagur sem ég hugsa ekki um bloggið, set eitthvað inn á það, uppfæri Facebook-síðuna eða Instagram eða læt hugann reika um nýjar og spennandi tilraunir í eldhúsinu. Þið kæru lesendur eruð minn innblástur og mér finnst æðislegt að heyra frá ykkur hvað þið viljið sjá hér á síðunni. Ég reyni að mæta óskum allra og mun halda áfram að reyna það um ókomna framtíð.

En nóg af væmninni. Ég ætla að byrja nýja árið með hvelli enda verður 2016 algjörlega sturlað. Ég bara finn það á mér. Og eitt af því sem gerir það svona sturlað er þessi ómótstæðilegi ís sem er einfaldasti ís í heimi. Já, ykkur finnst ég kannski yfirlýsingaglöð en kíkið bara á uppskriftina. Það hefur aldrei verið svona fljótlegt að búa til bragðgóðan ís heima.

Í uppskriftinni er karamellusósa og ef þið viljið búa til ykkar eigin þá mæli ég alltaf hiklaust með þessari.


Einfaldasti ís í heimi
Leiðbeiningar
  1. Þeytið rjómann og blandið honum síðan varlega saman við mjólkina og vanilludropa.
  2. Grófsaxið Oreo-kexið og blandið því saman við.
  3. Takið til form sem þið viljið nota - ég notaði hefðbundið brauðform.
  4. Setjið 1/3 af blöndunni í formið og drissið síðan karamellusósu yfir. Endurtakið þar til öll ísblandan er komin í formið.
  5. Setjið í frysti yfir nótt og berið síðan fram með enn meiri karamellusósu.

Umsagnir

Umsagnir