Stundum getur innblástur komið úr ólíklegustu áttum. Hér er sagan af því hvernig þessi hrískaka varð til.

Eitt kvöld í síðustu viku sat ég við tölvun og á ferðum mínum um Facebook sá ég stúlku spyrja inní einhverri af milljón grúppunum á samfélagsmiðlinum hvort hægt væri að fá hrísköku nú til dags. Þessa gömlu, góðu með karamellu og hrís. Þessi litli þráður vakti upp hjá mér óstjórnlega löngun í téða hrísköku og þá var ekki aftur snúið – hrískaka yrði það heillin!

Ég byrjaði á því að reyna að rifja upp bragðið og áferðina á þessari gömlu góðu. Það tók ekki langa stund, enda ein af mínum uppáhaldskökum í uppvextinum og bara það eitt að hugsa um hana lét mig finna fyrir alls kyns tilfinningum sem ég hafði ekki fundið lengi í garð bakkelsis – þrá, vænisýki, losti… Vá, hvað ein hrískaka getur haft mikil áhrif!

Næsta skref var að þróa hina fullkomnu uppskrift að þessari goðsagnakenndu köku. Ég þyrfti auðvitað svampbotn, en mig langaði ekki bara að baka hvaða svampbotn sem er. Ó nei, hrískakan ætti svo miklu betra skilið. Þannig að ég dembi mér í rannsóknarvinnu og fór að kynna mér alls kyns mismunandi svampbotna, þar til ég datt niður á hinn eina sanna. Svampbotn með sætri dósamjólk – einni af minni bestu vinkonu í eldhúsinu!

Og viti menn, þessi svampbotn er ekkert minna en konunglega góður! Ofboðslega þéttur í sér en samt mjúkur og léttur. Og maður þarf ekkert að vera að vesenast með að aðskilja eggin sem er alltaf stór plús!

Restin var svo ekkert mál. Ég bjó til karamellu sem ég hef oft gert áður, til dæmis hér, dembdi svo Rice Krispies í karamelluna og bræddi síðast rjóma og súkkulaði saman til að toppa sæluna.

Til að gera einn svampbotn þurfti ég bara hálfa dós af sætu dósamjólkinni þannig að ég gerði bara tvo! Þessi uppskrift miðast því við tvær sirka 18 sentímetra stórar kökur. Sem er sko alls ekki verra þar sem það er leikur einn að frysta svona lostæti. Ég meina, hver vill ekki eiga eitt stykki svona gúmmulaði í frysti? Þetta er nú einu sinni hrískaka!

Ég vona að þessi uppskrift og myndirnar veki upp einhverja nostalgíu í ykkur eins og baksturinn vakti uppí mér.

Lengi lifi hrískaka!


Hrískaka - þessi gamla góða
Hráefni
Karamella
Súkkulaðibráð
Leiðbeiningar
Svampbotnar
  1. Takið til tvö smelluform, sirka 18 sentímetra stór og setjið smjörpappír í botninn. Smyrjið formin með olíu eða smjöri. Hitið ofninn í 160°C.
  2. Byrjið á að hræra smjör og sykur vel saman í sirka 3-4 mínútur, eða þar til blandan er létt og ljós.
  3. Blandið síðan sætu dósamjólkinni vel saman við og síðan eggjunum, einu í einu.
  4. Blandið síðan hveiti, lyftidufti og vanilludropum vel saman við herlegheitin. Skiptið deiginu jafnt á milli formanna tveggja og bakið í 45-50 mínútur. Leyfið kökunni að kólna í forminu.
Karamella
  1. Setjið sykur í pott og hitið yfir meðalhita. Hrærið stanslaust í sykrinum, en fyrst mun hann verða að kögglum og síðan bráðna í ljósbrúna blöndu.
  2. Þegar sykurinn er bráðnaður bætið þið smjörinu út í og hrærið áfram stanslaust. Passið ykkur því blandan mun bubbla og láta illa þegar smjörið snertir sykurinn. Hrærið þar til allt smjörið er bráðnað og búið að blandast saman við sykurinn.
  3. Hellið síðan rjómanum varlega út í á meðan þið hrærið en blandan mun aftur láta illa. Leyfið þessu að sjóða í um 1 mínútu en haldið áfram að hræra stanslaust.
  4. Takið pottinn af hellunni og blandið saltinu saman við. Hellið blöndunni í aðra skál og leyfið henni að kólna í 10-15 mínútur.
  5. Hellið síðan karamellunni yfir botnana tvo. Ég notaði ekki alveg alla karamelluna og átti sirka 1/2 bolla eftir af henni sem ég setti í krukku og geymi til betri tíma.
  6. Stráið síðan Rice Krispies yfir karamelluna og þrýstið því aðeins ofan í hana. Og ekki taka kökuna úr forminu strax!
Súkkulaðibráð
  1. Setjið súkkulaði og rjóma í skál og bræðið í örbylgjuofni í 30 sekúndur í senn. Munið að hræra alltaf vel í blöndunni eftir hvert holl.
  2. Helllið súkkulaðinu ofan á Rice Krispies og smyrjið því út í hvern krók og kima.
  3. Skellið kökunni (í forminu ennþá) inn í ísskáp og leyfið henni að kólna í að minnsta kosti klukkutíma. Síðan rennið þið hníf meðfram forminu til að losa kökuna og skellið henni á disk. Gott er að leyfa henni að standa í að minnsta kosti hálftíma áður en hún er borin fram. Njótið!

Umsagnir

Umsagnir