Það er lögmál hér á Blaka að það verður að gera ostakökur úr nánast hverju sem er. Eins er það eiginlega orðið lögmál að Rice Krispies er orðin mikil aðalpersóna hér á blogginu. Og ekki að ástæðulausu – það er hægt að leika sér með morgunkornið á svo marga vegu að maður fær bara ekki leið á því.
Og hvernig væri þá að sameina mínar þrjár ástir – Rice Krispies, Oreo með hnetusmjörsbragði og hnetusmjör? Þið vitið kannski svarið. Sú sameining var hreint út sagt glimrandi!
Í þessari uppskrift nota ég hnetusmjörssúkkulaðibita, Reese’s peanut butter chips, sem ég hef séð bæði í Hagkaupum og Krónunni. Þið getið auðvitað notað hvaða súkkulaði sem er en þetta hnetusmjörssúkkulaði fær mín allra bestu meðmæli. Bráðnar í munni alveg hreint.
Unaðslegir Rice Krispies- og Oreo-molar
|
|
Hráefni
- 3msk smjör
- 1poki litlir sykurpúðar(ég kaupi mína í Söstrene Grene)
- 1/4bolli hnetusmjör
- 1/2tsk salt
- 2 1/2bolli Rice Krispies
- 8 Oreo-kex með hnetusmjörsbragði, grófsaxað
- 1/2poki hnetusmjörssúkkulaði(140 g)
Leiðbeiningar
- Takið til ílangt form, stærðin skiptir hér ekki öllu aldrei þessu vant. Þekið það með bökunarpappír og leyfið pappírnum að ná upp hliðarnar.
- Bræðið smjörið yfir meðalhita í stórum potti. Lækkið hitann og setjið 4 bolla af sykurpúðum út í. Hrærið stanslaust þar til sykurpúðar eru bráðnaðir.
- Takið pottinn af hellunni og verið snögg að hræra hnetusmjöri og salti við og síðan Rice Krispies, helmingnum af Oreo-kexinu og 1/2 bolla af sykurpúðum.
- Nú ætti blandan að vera mjög þykk og volg þannig að þið getið unnið hana með höndunum. Setjið blönduna í formið og mótið hana eins og þið viljið á meðan þið þrýstið henni saman í botninn.
- Bræðið hnetusmjörssúkkulaðið og hellið því yfir blönduna. Stráið restinni af Oreo-kexinu og sykurpúðum yfir það og njótið.