Þessi Snickers-eplakaka er algjört æði, þó ég segi sjálf frá. Og þó þú kunnir ekkert að baka – og ég meina EKKERT – þá geturðu búið til þessa köku og heimilisfólkið á eftir að dýrka þig!
Þessi kláraðist á núll einni heima hjá mér og góða við hana er að það er alltaf hægt að hita hana upp daginn eftir og hún er alveg jafn góð – ef ekki betri.
Ég er vön því að bjóða upp á karamellusósu með eplaköku en í þessu tilfelli þarf það ekki út af öllu Snickers-inu sem er í þessari köku. Svo er líka æðislegt að finna mjög vægt hnetubragð sem kemur frá Snickers-inu. Geggjuð blanda og geggjuð Snickers-eplakaka!
Ég get ekki ítrekað það nógu mikið að þessi Snickers-eplakaka er ofureinföld!
Þannig að ekki hika, farið rakleiðis inn í eldhús núna og skellið í þessa!
Ofureinföld Snickers-eplakaka
|
|
Hráefni
Mulningur
- 1/2bolli Kornax-hveiti
- 1/2bolli haframjöl
- 1/2bolli púðursykur
- 1/2tsk lyftiduft
- smá salt
- 75 g kalt smjör, skorið í teninga
Eplablanda
- 3-4 stór epli(afhýðuð og skorin í litla bita)
- 3msk brætt smjör
- 2msk Kornax-hveiti
- 1msk sítrónusafi
- 1 tsk vanilludropar
- 3msk mjólk
- 1/4bolli púðursykur
- 1/2tsk kanill
- smá salt
- 3 Snickers(söxuð)
Leiðbeiningar
Mulningur
- Hitið ofninn í 180°C. Blandið öllum hráefnum í mulninginn saman þar til blandan er orðin að grófri mylsnu. Kælið í ísskáp á meðan þið búið til fyllinguna.
Eplablanda
- Blandið hveiti og smjöri vel saman í skál. Hrærið því næst sítrónusafa og vanilludropum vel saman við.
- Bætið púðursykri, kanil og salti saman við og hellið þessari blöndu yfir eplin og hrærið svo hún hylji eplin.
- Hellið eplablöndunni í eldfast mót. Raðið Snickers-bitunum yfir blönduna.
- Dreifið mulningnum yfir. Bakið í 30 til 35 mínútur. Leyfið kökunni að kólna í að minnsta kosti 10 mínútur áður en þið berið hana fram - að sjálfsögðu með rjóma eða vanilluís.