Bökunarmaraþon Blaka

Við erum enn að safna styrkjum fyrir Kraft þó maraþonið sjálft sé afstaðið. Ef þið viljið leggja málefninu lið megið þið endilega leggja inn á reikning Krafts:

327-26-112233 - kennitala 571199-3009


Við tökum saman styrki á næstu dögum og birtum heildarupphæðina á síðunni innan skamms.
Takk fyrir stuðninginn!

blaka_marathon

Bökunarbloggið Blaka kynnir með stolti góðgerðarviðburðinn Bökunarmaraþonið. Maraþonið er í óhefðbundnari kantinum en í því mun ég, Lilja Katrín Gunnarsdóttir, eigandi og yfirbakari hjá Blaka, baka í 24 klukkustundir samfleytt á heimili mínu í Kópavogi til styrktar Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess.

Ég ætla að byrja maraþonið klukkan 12 á hádegi laugardaginn 17. september en þá fer fyrsta kakan inn í ofn. Síðasta kakan fer inn í ofn akkúrat sólarhring síðar, eða klukkan 12 á hádegi sunnudaginn 18. september. Á þessum sólarhring, og eitthvað fram eftir sunnudeginum, eru allir velkomnir í kaffi og með’í á heimili mínu í Melgerði 21 í Kópavogi. Þá getur fólk gúffað í sig af vild en í staðinn fyrir að borga fyrir kræsingarnar er fólk hvatt til að styrkja Kraft, á staðnum eða leggja inn á bankareikning félagsins. Það er þó alls engin skylda en ég verð með sérstaka styrktarbauka í kaffisamsætinu. Og auðvitað rennur allur ágóði til Krafts.

Þeir sem eru ekki með klink á sér geta lagt beint inn á reikning Krafts – Reikningsupplýsingar eru: 327-26-112233, kennitala Krafts er 571199-3009. Einnig er hægt að leggja inn á félagið í gegnum heimasíðu þess. Ég vil minna fólk á að skrifa “Bökunarmaraþon” eða “Blaka” í skýringu svo ég geti fengið nákvæma tölu um hvað ég safna miklu.

Ég er með frábæra styrktaraðila á bak við mig en án þeirra væri þetta ekki hægt. Þau fyrirtæki sem leggja til vörur svo gúmmulaðið geti orðið til eru Lífland, Nesbú, Katla, Royal, Góa, MS, Ölgerðin og Krónan.

[logo_carousel_slider]

Hægt verður að fylgjast með herlegheitunum á Facebook– og Instagram-síðu Blaka, sem og á Snapchat-inu mínu, en notendanafnið mitt þar er liljagunn. Þá set ég allar uppskriftir sem ég baka eftir í maraþoninu inn á blaka.is þegar tími gefst.

Þetta er vissulega maraþon í óhefðbundnari kantinum og kannski á ég eftir að sofna með andlitið ofan í smjörkremi en eitt veit ég fyrir víst – þetta verður mega stuð!

Þannig að endilega sýnið ykkur og sjáið aðra, hóið vinahópnum saman eða fjölskyldunni og kíkið í kaffi til mín og styrkið gott málefni í leiðinni. Ég lofa að það verður nóg af rjóma og nóg af súkkulaðisyndum og að andrúmsloftið verður kolvetnaþrungið.

Hlakka til að sjá ykkur!
Kær kv. Lilja og Kraftur.

X