Það hefur líklegast ekki farið framhjá neinum sem fylgist með þessari síðu að ég elska Pretzel. Við sjáum sönnunargögn:
Ómótstæðilegar ostafylltar Pretzel stangir.
Pretzel saltkringlur sem bráðna í munni.
Það er svo magnað hvernig svona einfalt deig, eins og Pretzel-deigið, getur boðið upp á endalausa möguleika í útfærslum. Hér er uppskrift að Pretzel beyglum sem eru svo dásamlegar að ég á varla til orð!
Þessar verðið þið að prófa!
Geggjaðar Pretzel beyglur
|
|
Hráefni
- 1 1/2bolli volgt vatn
- 3msk púðursykur
- 2tsk sjávarsalt
- 1bréf þurrger(12 g)
- 2 1/2 bolli hvítt hveiti
- 2bollar heilhveiti
- 4msk ólífuolía
- 10bollar vatn
- 2/3bolli matarsódi
- 1 Nesbú-eggjarauða blönduð saman við 1 msk af vatni
- meira sjávarsalt
- sesamfræ
Leiðbeiningar
- Blandið vatni, sykri og salti saman í stórri skál og stráið þurrgeri yfir blönduna. Leyfið þessu að standa í um 5 mínútur eða þar til blandan byrjar að freyða.
- Blandið ólífuolíu og hveiti saman við gerblönduna og hrærið þokkalega vel saman. Hnoðið deigið í 1 til 2 mínútur í skálinni, skellið deiginu svo á borð sem er búið að dusta hveiti á og hnoðið í 2 til 3 mínútur í viðbót.
- Smyrjið smá bragðdaufri olíu í skálina og leyfið deiginu að liggja þar. Setjið hreint viskastykki yfir skálina og leyfið þessu að hefast í 55 til 60 mínútur á volgum stað.
- Stillið ofninn á 225°C og setjið smjörpappír á ofnplötu.
- Hellið vatni og matarsóda í stóran pott og látið koma upp suðu á hæsta hita. Á meðan vatnið er að hita sig búið þið til kúlur úr deiginu og búið til þokkalega stórt gat í þeim miðjum með fingri.
- Þegar vatnið er byrjað að bullsjóða skellið þið beyglunum ofan í það, bara 1 til 2 í einu, og látið þær liggja í vatns- og matarsódablöndunni í 30 sekúndur.
- Takið beyglurnar upp úr vatninu og raðið á ofnplötuna. Penslið beyglurnar með eggjarauðu-vatnsblöndunni. Stráið vel af sjávarsalti og/eða sesamfræjum yfir beyglurnar og bakið í 10 til 12 mínútur.