Þó ég baki meira en góðu hófi gegnir og sé alveg hreint ágæt þegar kemur að bakstri, þá kemur það samt auðvitað fyrir að ég klúðra allsvakalega. En af öllum mistökum má læra og oftar en ekki fæðist eitthvað fallegt úr þeim. Eins og þessar pretzel saltkringlur.

Eiginmaðurinn minn yndislegi elskar pretzel þannig að ég er lengi, lengi búin að vera að fullkomna pretzel uppskriftina mína með því að lesa mér endalaust til á netinu hvernig á að ná alveg fullkominni, mjúkri saltkringlu. Og loksins í gærkvöldi náði ég því! Og núna finnst mér ég algjör kjáni að hafa náð að klúðra svona einföldum hlut, en stundum er eins og heilinn bara frjósi í gegn og hleypi engu nýju inn.

Það er nefnilega ofureinfalt að búa til pretzel en það eru nokkur atriði sem þarf að hafa í huga. Það er mjög mikilvægt að leyfa deiginu að hefast í klukkustund í olíuborinni skál. Deigið þarf þessa olíu til að halda teygjanleika sínum og það er líka miklu auðveldara að vinna með það þegar olía er annars vegar. Svo þegar kemur að því að demba kringlunum ofan í sjóðandi matarsódavatnið þá verður vatnið að vera farið að sjóða almennilega. Mjög mikilvægt! Þá er einnig mjög mikilvægt atriði að baka kringlurnar við háan hita og þangað til þær eru dökkar og fallega gullnar. Annars eru þær hráar. Og ekki gleyma saltinu! Hvað væri saltkringla án salts. Ekki vera feimin við saltið og saltið þær „aggressively“ eins og kollegi minn Gordon Ramsay myndi segja.

Og þess má geta að það er lítið mál að gera saltkringlurnar vegan með því að skipta smjöri út fyrir vegan smjör.

Skemmtið ykkur vel í eldhúsinu elsku dúllurnar mínar og ekki vera hrædd við að gera mistök – þau eru bara falleg slys eftir allt saman.


Pretzel saltkringlur sem bráðna í munni
Hráefni
Leiðbeiningar
  1. Blandið vatni, sykri og sjávarsalti saman í stórri skál og stráið þurrgeri yfir blönduna. Leyfið þessu að standa í um 5 mínútur eða þar til blandan byrjar að freyða.
  2. Blandið smjöri og hveiti saman við gerblönduna og hrærið þokkalega vel saman.
  3. Nú á ég ekki hrærivél þannig að ég hnoða deigið í 1-2 mínútur í skálinni, skelli deiginu svo á borð sem ég er búin að dusta hveiti á og hnoða í 2-3 mínútur í viðbót.
  4. Smyrjið smá olíu í skálina og dembið deigkúlunni ofan í hana. Setjið hreint viskastykki yfir skálina og leyfið þessu að hefast í 55-60 mínútur á volgum stað.
  5. Stillið ofninn á 230°C og setjið smjörpappír á ofnplötu.
  6. Hellið vatni og matarsóda í stóran pott og látið koma upp suðu á hæsta hita.
  7. Á meðan vatnið er að hita sig búið þið til lengjur úr deiginu, eins stórar og þið viljið og mótið pretzel úr lengjunum. Ég hafði mínar meðalstórar og fékk 10 pretzel úr þessari uppskrift.
  8. Þegar vatnið er byrjað að bullsjóða skellið þið saltkringlunum ofan í það, bara 1-2 í einu, og látið þær liggja í vatns- og matarsódablöndunni í 30 sekúndur.
  9. Takið saltkringlurnar upp úr vatninu og raðið á ofnplötuna. Stráið vel af sjávarsalti yfir kringlurnar og bakið í 14-16 mínútur, eða þar til kringlurnar eru orðnar dásamlega dökkar og djúsí.

Umsagnir

Umsagnir