Þessi kaka lætur ekki mikið fyrir sér fara á veisluborði en ekki láta blekkjast – þetta er sannkölluð bomba í dulbúningi!

Þessa köku setti ég saman fyrir ellefu ára afmæli Amelíu dóttur minnar, einfaldlega út af því að mér fannst ég ekki vera með nóg (ég er samt alltaf með of mikið) og ákvað að taka klassíska Lilju og henda í eina ofureinfalda köku korter í afmæli (eins og ég geri alltaf – alveg sama hvað ég baka mikið). Einhver að tengja við þessa áráttu?

Mig langaði að gera eplaköku en var búin með eplin þannig að ég gramsaði í ísskápinn og athugaði hvað ég átti til. Og viti menn – þarna starði sneisafull krukka af lemon curd á mig með nístandi augnaráði. „NOTAÐU MIG!“ öskraði krukkan í sífellu þar til ég lét undan.

Um var að ræða krukku sem ég keypti í bríarí því mér fannst hún svo falleg. Reyndar líka út af því að ég elska lemon curd. Ég er samt eina manneskjan á heimilinu sem er búin að uppgötva hve mikil guðs gjöf lemon curd er þannig að innihald krukkunnar lá fyrir skemmdum.

Ég fékk alls konar hugdettur á meðan krukkan stóð á borðinu og ranghvolfdi augunum yfir seinaganginum í fattaranum mínum. Ætti ég að gera vanillubollakökur með lemon curd fyllingu og sítrónukremi? Nei, of mikið vesen. Lemon meringue pie? Nei, tekur of langan tíma. Er ég virti krukkuna fyrir mér rann þetta upp fyrir mér. Auðvitað ætti ég ekki að leita langt yfir skammt. Halda mig við upprunalegu hugmyndina, eplaköku, með nokkrum smávægilegum tilfærslum. Þannig fæddist þessi dásamlega sítrónukaka sem sló í gegn í afmælinu og kláraðist upp til agna.

Þetta er svipaður botn og í eplakökumulningi eða jafnvel hjónabandssælu nema fyllingin samanstendur af, jú einmitt, lemon curd.

Það er rosalega einfalt að búa til sitt eigið lemon curd en ég fer nánar yfir það síðar. Á meðan getið þið rokið út í búð og keypt tilbúið lemon curd og hent þessari dásemd saman á nokkrum mínútum!

Þið þakkið mér seinna!

Sítrónukakan sem allir dýrka og dá
Hráefni
Leiðbeiningar
  1. Hitið ofninn í 180°C og takið til hringlaga form, sirka 22 sentímetra stórt. Smyrjið vel.
  2. Blandið sykri, hveiti og kókosmjöli vel saman. Skerið smjörið í litla bita og blandið saman við þurrefnin með höndunum þar til allt er blandað saman og engir smjörkekkir í deiginu.
  3. Þrýstið rétt rúmlega helmingnum af deiginu í kökuformið.
  4. Smyrjið lemon curd yfir botninn. Hér er smekksatriði hvað er notað mikið af lemon curd en ég huldi botninn alveg og aðeins rúmlega það.
  5. Dreifið restinni af deiginu yfir lemon curd og bakið í 20 til 25 mínútur. Leyfið kökunni að kólna í um korter við stofuhita áður en hún er borin fram. Þessi er geggjuð með ís eða þeyttum rjóma.

Umsagnir

Umsagnir

This entry was posted in Kökur.