Það er alveg makalaust hvað það hellist yfir mig mikil bakstursþrá þegar að haustið mætir á svæðið í öllu sínu veldi.

Það er líka mjög fyndið hvað bragðlaukarnir og maginn kalla á allt aðra hluti þegar að byrjað er að kólna, vindurinn gnauðar fyrir utan og maður finnur að snjórinn nálgast á ógnarhraða. Enginn sumarmatur, takk! Ó, nei – bara djúsí haust- og vetrargúmmulaði sem yljar manni að innan.

Ég ætla að byrja þetta haust á einni af mínum uppáhaldsuppskriftum sem minnir óneitanlega mikið á jólin. Við erum að tala um ljósku. Já, ljósku! Sem sagt ekki brúnku, eða brownie, heldur ljósari týpuna sem ávallt er kölluð ljóska. Þessi ljóska minnir á eina, stóra piparköku og er toppuð með hvítu súkkulaði og piparkökumulningi.

Hljómar þetta ekki eins og akkúrat eitthvað sem þú þarft á köldum haustkvöldum?

Það skemmir ekki fyrir að hér er um að ræða ofureinfalda uppskrift með nokkrum hráefnum sem ég hræri saman í höndunum, þannig að krakkar niður í leikskóla geta bakað þessa snilld!

Góða skemmtun og hafið það huggulegt!


Ljóskan sem hringir inn haustið
Hráefni
Kakan
Toppur
Leiðbeiningar
Kakan
  1. Hitið ofninn í 180°C og takið til kassalaga form, sirka 20x20 cm. Smyrjið það með olíu eða smjöri og setjið til hliðar.
  2. Takið ykkur skál í hönd og blandið smjöri, púðursykri og sírópi vel saman. Bætið eggjunum við og hrærið í 2-3 mínútur þar til blandan er orðin léttari. Blandið því næst salti og vanilludropum saman við.
  3. Blandið restinni af hráefnunum saman við en blandið bara þar til allt er komið saman - alls ekki hræra of lengi því þá getur kakan orðið seig.
  4. Inn í ofn með þessa dúllu og bakið í 20-23 mínútur. Leyfið henni að kólna áður en hún er skreytt.
Toppur
  1. Hitið rjóma í 45 sekúndur og upp í 1 mínútu í örbylgjuofni. Brjótið súkkulaðið í bita og skellið saman við rjómann. Látið standa í um 5 mínútur. Hrærið vel saman þar til allt súkkulaðið er bráðnað. Hellið yfir kökuna og stráið muldum piparkökum yfir.

Umsagnir

Umsagnir

This entry was posted in Kökur.