Ég veit ekki með ykkur en ég elska sjónvarpsköku. Það er ein af kökunum sem detta aldrei úr tísku. Því skil ég ekki í mér að hafa ekki kveikt á því fyrr að gera sjónvarpskökusnúða!

Sem betur fer kviknaði á litlu ljósaperunni í hausnum á mér og ég ákvað að prófa. Svo sem ekki mikill glannaskapur því það voru afskaplega litlar líkur á að þetta myndi klikka.

Ég bjó til gerdeig, leyfði því að hefast og gerði síðan sjónvarpskökubráð, nema ég sleppti mjólkinni sem vanalega er í slíkri bráð. Síðan smurði ég sjónvarpskökufyllingunni yfir útflatt deigið, rúllaði upp, skar í snúða og fylgdist svo með þessum dúllum baða sig í ofnhitanum.

Það er vægt til orða tekið að segja að þessir snúðar séu trylltir. Ég elska að baka snúða og hef bakað allar mögulegar og ómögulegar tegundir af kanilsnúðum. En þessir snúðar breyta leiknum! Og það eina sem ég hugsa um núna er hvort ég geti breytt einhverri annarri geggjaðri köku í snúð.

Framhald síðar. Á meðan ég hugsa þá skulið þið drífa ykkur í að baka sjónvarpskökusnúðana með bros á vör.

Áfram snúðar!


Trylltir sjónvarpskökusnúðar
Hráefni
Deig
Fylling
Leiðbeiningar
Deig
  1. Hitið mjólkina þannig að hún sé við stofuhita. Blandið geri og sykri saman við mjólkina og hrærið. Látið bíða í 5-10 mínútur.
  2. Bræðið smjörið og látið það kólna að stofuhita. Blandið síðan restinni af hráefnunum saman við gerblönduna, en passið að blanda hveiti smátt og smátt saman við svo deigið verði ekki of þurrt.
  3. Smyrjið stóra skál og leyfið deiginu að hvíla í henni. Hyljið skálina með viskastykki og leyfið deiginu að hefast í um klukkustund.
  4. Þegar deigið hefur hefast er gott að hnoða það í nokkrar mínútur á borðfleti, setja síðan viskastykki yfir og leyfa að hefast aftur í korter til hálftíma. Þetta er ekki nauðsynlegt en snúðarnir verða betri ef þeir fá smá aukatíma til að hefast.
Fylling
  1. Blandið öllum hráefnum vel saman. Stundum getur verið gott að bræða smjörið aðeins í örbylgjuofni þannig að partur sé bráðnaður og partur mjúkur.
  2. Hitið ofninn í 175°C og takið til ofnplötu með smjörpappír eða smyrjið eldfast mót.
  3. Fletjið út deigið og dreifið fyllingunni yfir. Rúllið deiginu upp og skerið í bita, en úr þessari uppskrift fæ ég 12-15 snúða. Raðið snúðunum á plötuna eða mótið, setjið viskastykki yfir og leyfið að hvíla í nokkrar mínútur.
  4. Skellið síðan snúðunum inn í ofn og bakið í 15-18 mínútur, eða þar til þeir eru yndislega gylltir. Leyfið þeim aðeins að kólna áður en þið gúffið þeim í ykkur.

Umsagnir

Umsagnir