Ég gæti borðað ís hvar og hvenær sem er og ég held að besta vinna sem ég hafi nokkurn tímann unnið hafi verið þegar ég vann í framleiðslusal Emmess ís og mátti borða eins mikinn ís og ég vildi!
Mér finnst þess vegna sjúklega gaman að búa til minn eigin ís og prófa mig áfram með alls kyns samsetningar. Þetta er ein af týpunum sem er fullkomlega ómóstæðileg.
Ég datt niður á frábæra leið til að búa til ís fyrir nokkrum árum – nefnilega að nota sæta dósamjólk til að búa til ísinn. Þetta er svo ofureinföld leið og ekki skemmir fyrir að bragðið er gjörsamlega tryllt! Þessi tiltekna uppskrift birtist fyrst í bókinni minni, Minn sykursæti lífsstíll, og myndirnar tók hin dásamlega Sunna Gautadóttir.
Ég spreða ekki oft í ástaraldin en mér finnst það bara passa svo svakalega vel með ís og hvítu súkkulaði. Býður sykrinum birginn á töfrandi hátt.
Leyfið töfrunum að hrífa ykkur með þessari æðislegu ístertu.
Ísterta með ástaraldin og hvítu súkkulaði
|
|
Hráefni
Botn
- 7 vöffluform(grófmöluð)
- 1msk púðursykur
- 4msk brætt smjör
Fylling
- 1/2dós dós sæt dósamjólk(sweetened condensed milk)
- 100g hvítt súkkulaði(brætt)
- kjöt úr 3 ástaraldinum(plús 1 ástaraldin til að skreyta með)
- 300ml rjómi
Leiðbeiningar
Botn
- Hitið ofninn í 180°C og takið til hringlaga form, sirka 20 sentímetra stórt.
- Setjið vöffluformin og púðursykur í matvinnsluvél og blandið saman þar til blandan minnir á mylsnu. Bætið smjörinu saman við og hrærið vel saman.
- Þrýstið blöndunni í botninn á forminu og bakið í 10-15 mínútur. Leyfið botninum að kólna alveg.
Fylling
- Byrjið á því að þeyta rjómann og setja til hliðar.
- Blandið síðan mjólkinni, hvíta súkkulaðinu og ástaraldin saman í skál.
- Bætið rjómanum saman við og blandið varlega saman með sleif eða sleikju.
- Skellið blöndunni ofan á botninn og sléttið úr henni. Frystið í að minnsta kosti 7 klukkutíma, helst yfir nótt. Skreytið síðan með ástaraldinum.