Það eina sem ég dýrka meira en að baka snúða er að borða þá!

Eins og nafnið á þessum snúðum gefur til kynna, fæddust þeir út frá mistökum. Algjörum klaufamistökum sem ég skil ekki enn hvernig ég gerði – en ég er mjög fegin að ég gerði þau!

Þannig er mál með vexti að á fyrsta degi ársins henti ég í kanilsnúðadeig og hugsaði mér gott til glóðarinnar. Allt gekk eins og í sögu. Ég hafði nægan tíma til að dúlla mér og leyfði deiginu að hefast vel áður en ég flatti það út, penslaði það með smjöri og stráði fyllingunni yfir. Ég rúllaði dúnmjúka deiginu upp og leyfði því að hvílast aðeins lengur. Ég fann það með hverri einustu frumu í líkamanum að þetta yrðu geggjaðir snúðar!

En síðan rann það upp fyrir mér. Ég fann kalt vant renna milli skinns og hörunds er ég áttaði mig á því að ég hafði gleymt lykilhráefni í kanilsnúðum. Jú, sjálfum kanilnum!

Mig langaði að grenja og leggjast í gólfið. Reyndi að rífa vel upprúllaða og þétta deigið í sundur en sá strax að það myndi aldrei ganga. Kanillinn þurfti að komast inn í þessa snúða! En hvernig?

Svarið blasti við mér er ég horfði í kringum mig og sá hlynsíróp og poka af pekanhnetum öskra á mig. Auðvitað myndu þessir látlausu kanilsnúðar umbreytast í klístraða snúða í skugga þessara mistaka. Ég myndi setja sykurbráð í botninn á eldfasta mótinu og lauma kanilnum þar inn.

Þannig fæddust þessir snúðar og ég er svo þakklát fyrir þetta axarskaft mitt því þessir snúðar eru guðdómlegir.

Munið krakkar – stærstu mistökin í eldhúsinu geta oft orðið að gómsætustu sigrunum ykkar.


Klúðursnúðar
Hráefni
Deig
Fylling
Í botninn
Leiðbeiningar
Deig
  1. Blandið mjólk, þurrgeri og sykri vel saman í skál og leyfið gerinu að ná vopnum. Þetta tekur 5-10 mínútur, eða þar til blandan er byrjuð að freyða.
  2. Blandið síðan salti, smjöri, eggjum og kanil vel saman við.
  3. Bætið hveitinu smátt og smátt saman við og hnoðið þar til deigið er ekki lengur klístrað. Setjið deigið í skál, viskastykki yfir og leyfið að hefast í um klukkustund við stofuhita.
Fylling
  1. Setjið deigið á borðflöt sem búið er að dusta með hveiti og hnoðið það vel. Fletjið það síðan út.
  2. Penslið deigið með smjöri og stráið síðan sykri og púðursykri yfir. Rúllið deiginu upp í lengju og þrýstið henni vel saman. Skerið lengjuna í bita og leyfið þeim að hvíla aðeins.
Í botninn
  1. Takið til stórt, eldfast mót og smyrið það vel. Dreifið pekanhnetum í botninn.
  2. Setjið restina af hráefnunum saman í pott og bræðið yfir meðalhita þar til smjörið er alveg bráðnað. Leyfið blöndunni að léttsjóða í 1-2 mínútur til viðbótar. Takið pottinn síðan af hellunni og hellið ofan á pekanhneturnar.
  3. Hitið ofninn í 180°C. Raðið snúðunum ofan á pekanhnetublönduna og fletjið þá aðeins út með lófanum. Setjið viskastykki yfir formið og leyfið snúðunum að hefast aftur í hálftíma.
  4. Bakið í 20-25 mínútur og leyfið snúðunum aðeins að kólna þegar þeir koma úr ofninum því sykurblandan í botninum er brennandi heit. Borðið síðan með bestu lyst!

Umsagnir

Umsagnir