Ég gaf út bók í fyrra. Mér finnst eins og það hafi gerst fyrir milljón árum, en samt í gær – svolítið eins og þegar maður eignast barn. Skrýtið.

Ég safnaði fyrir prentun á fyrstu bókinni minni, Minn sykursæti lífsstíll, á Karolina Fund og rest var sjálfboðavinna. Minn yndislegi eiginmaður hannaði bókina og braut hana um, ég bakaði eins og vindurinn og yndislegi ljósmyndarinn Sunna Gautadóttir tók allar myndirnar.

Upplagið sem ég lét prenta var ekki mjög stórt en það kláraðist samt nánast allt mjög fljótlega sem mér fannst afskaplega gleðilegt. Nú blundar auðvitað í mér að skrifa aðra bók, en það er mikil áhætta og kostnaðarsamt að gera þetta allt sjálfur þannig að ég þarf að hugsa það mál vel og vandlega.

En allavega, ég ætlaði nú ekki að skrifa einhverja langloku um þetta ferli heldur deila með ykkur einni uppskrift úr bókinni. Í bókinni er nefnilega kafli um heimagert nammi þar sem ég endurgeri frægt nammi sem flestir þekkja – eins og Dumle karamellur. Dumle karamellur eru náttúrulega dásamlega gómsætar og datt mér aldrei í hug að ég gæti endurgert þær heima í litla eldhúsinu í Kópavogi. En viti menn, eftir nokkrar tilraunir fram og til baka, með súkkulaði upp um alla veggi og karamelluklístraða svuntu tókst það.

Þessa mynd tók hin dásamlega Sunna Gautadóttir.

Eins og með flest nammi eða konfekt þá er þetta smá vesen en svo fullkomlega þess virði.

Passið ykkur bara – þessar karamellur eru skuggalega fljótar að hverfa!

Heimagerðar Dumle Karamellur
Hráefni
Leiðbeiningar
  1. Takið til form, um 15×15 sentimetra stórt og klæðið það með bökunarpappír.
  2. Setjið mjólk, smjör, hunang, sykur og salt í pott og bræðið saman yfir lágum hita. Hrærið stanslaust. Hækkið hitann lítið eitt þegar þið sjáið að sykurinn hefur leyst upp og haldið áfram að hræra í um 10–15 mínútur, eða þar til blandan er farin að líkjast karamellu á litinn.
  3. Takið pottinn af hellunni og hellið karamellunni í formið. Leyfið blöndunni að kólna við stofuhita í um hálftíma og síðan inni í ísskáp í 4 til 5 klukkutíma.
  4. Bræðið mjólkursúkkulaðið yfir vatnsbaði eða með 30 sekúndna millibili í örbylgjuofni. Skerið karamelluna í passlega bita og þekið bitana með súkkulaði.
  5. Þessar karamellur eru aðeins of gómsætar og alveg eins, jafnvel betri, og ekta Dumle-karamellur. Þær geymast bara í 3 til 4 daga í ísskáp en trúið mér – þær hverfa á örskotstundu!

Umsagnir

Umsagnir

This entry was posted in Konfekt.