Hún móðir mín er búin að vera alveg fáránlega dugleg síðustu mánuði að borða ekki sykur. Og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Hún hefur yngst um fimmtán ár, grennst talsvert og ljómar öll. Þvílíkur dugnaður!
Mér hefur fundist mjög leiðinlegt samt að geta aldrei gefið henni að smakka kræsingarnar mínar. En þar sem móðir mín hefur gert svo ótalmargt fyrir mig síðustu 33 árin þá braut ég odd af oflæti mínu, steig rækilega út fyrir þægindarammann og bakaði fyrir hana sykurlausa súkkulaðitertu.
Og viti menn – hún var alveg svakalega bragðgóð! Það er aldrei að vita nema Blaka verði oftar að prófa eitthvað á svipuðum nótum…
Sykurlaus og sjúk súkkulaðiterta
|
|
Hráefni
- 115g sykurlaust, dökkt súkkulaði
- 1/2bolli kókosolía
- 2/3bolli hunang
- 3 Nesbú-egg
- 1/2bolli gott kakó
- 1tsk instant kaffi(má sleppa)
- 1/4tsk sjávarsalt
Leiðbeiningar
- Hitið ofninn í 180°C og smyrjið hringlaga form, ca 18-20 sentímetra, með kókosolíu.
- Blandið súkkulaði og kókosolíu saman í skál og hitið í örbylgjuofni þar til allt er bráðnað saman. Passið samt að hræra í blöndunni á 30 sekúndna fresti svo þetta brenni ekki við.
- Blandið hunanginu saman við súkkulaðiblönduna og síðan eggjunum - einu í einu.
- Bætið restinni af hráefninu saman við og hrærið vel saman.
- Hellið í formið og bakið í 25 mínútur. Og já, ég skreytti með flórsykri - ég bara gat ekki sleppt því! En auðvitað er hægt að skreyta kökuna með hverju sem er - til dæmis ferskum berjum.