Loksins, loksins, loksins er Þorláksmessa runnin upp – einn af mínum uppáhaldsdögum á árinu! Þessi dagur er algjörlega heilagur fyrir mér og vil ég vera búin að öllu jólastússi til að geta notið þess að skreyta í rólegheitum og eyða gæðatíma með minni yndislegu fjölskyldu.
En það þýðir samt ekki að ég kíki ekki inn í eldhús og baki eins og eina köku. Alls ekki. En hún þarf þá að vera ofureinföld og fljótleg – eins og þessi kaka.
Ef þið eigið smá tíma aflögu og langar í eitthvað djúsí og dásamlegt svona korter í jól þá mæli ég með þessari dásemd. Uppskriftin er svo einföld en samt hittir þessi algjörlega í mark. Hver vissi að hvítt súkkulaði og piparkökur pössuðu svona vel saman? Skotheld blanda!
Piparkökukaka með hvít súkkulaði búðingi
|
|
Hráefni
Kakan
- 225g mjúkt smjör
- 1bolli sykur
- 3 Nesbú-egg
- 1/3bolli síróp
- 3/4bolli heitt vatn
- 2 1/2 bolli Kornax-hveiti
- 1tsk engifer
- 1tsk kanill
- 1/2tsk salt
- 1/4tsk negull
- múskat á hnífsoddi
Búðingurinn
- 4 Nesbú-eggjarauður
- 1/2bolli sykur
- 1/4bolli maizena
- 1 1/2bolli nýmjólk
- 1tsk vanilludropar
- 2msk smjör
- 1/4bolli hvítir súkkulaðibitar
Leiðbeiningar
Kakan
- Hitið ofninn í 180°C og smyrjið 20 sentímetra form.
- Blandið smjöri og sykri vel saman og bætið því næst eggjunum við.
- Bætið síðan sírópi og vatni varlega saman við.
- Blandið restinni af hráefnunum saman við smjörblönduna og hellið deiginu í formið. Bakið í 28 til 30 mínútur.
Búðingurinn
- Setjið eggjarauður, sykur, maizena og mjólk í pott og hitið yfir meðalhita. Hrærið þar til blandan er farin að þykkna, eða í 3 til 4 mínútur.
- Takið af hitanum og hrærið smjöri, vanilludropum og súkkulaði saman við.
- Búið til göt á kökuna ykkar með enda á viðarsleif - því stærri göt því meira af búðingnum fer ofan í kökuna. Passið að gera götin ekki alla leið á botninn.
- Hellið volgum búðingnum yfir kökuna og berið fram - jafnvel með þeyttum rjóma.