Það virðist alltaf vera góður tími til að fá sér íslenskar pönnukökur, hvort sem maður er þreyttur eða glaður, leiður eða svangur. Þær eru alltaf bestar í heimi!
Móðir mín er mikill bakari og hefur kennt mér flest sem ég kann í eldhúsinu. Hún studdi alltaf við bakið á mér þegar að ég vildi leika mér í eldhúsinu og hjálpaði mér, þótt hún nennti því kannski ekki alltaf. Svo kom að því að ég þurfti ekki á því að halda að hún héldi í hendina á mér, en hún er alltaf með mér í anda þegar ég baka.
Ég hef reynt að gera það sama fyrir mín börn, kenna þeim smátt og smátt, leyfa þeim að taka meiri og meiri þátt. Það gefur bæði þeim og mér mjög mikið og þau verða ung frekar sjálfbjarga í eldhúsinu.
En aftur að pönnukökunum. Hér fyrir neðan er uppskrift sem móðir mín gaf mér að hennar pönnukökum, sem eru klárlega þær bestu í heimi. Þó að mínar verði aldrei jafngóðar reyni ég samt mitt besta, því betra get ég ekki gert.
Áfram Ísland!
|
|
- 2bollar hveiti
- 1/2tsk matarsódi
- 1tsk sjávarsalt
- 1/2bolli volgt kaffi
- 3 egg
- 1-2tsk vanilludropar
- 3-5bollar mjólk
- 50g smjör(brætt)
- flórsykur frá Kötlu
- þeyttur rjómi
- sulta
- Blandið hveiti, matarsóda, sjávarsalti, kaffi, eggjum, vanilludropum og 3 bollum af mjólk vel saman. Hér er lykilatriði að þeyta, þeyta, þeyta.
- Bræðið smjörið á pönnukökupönnunni yfir háum hita og þeytið saman við. Þeytið síðan 1–2 bollum af mjólk saman við. Deigið á að vera mjög þunnt en seigt.
- Skellið smá deigi á pönnuna og snúið pönnunni um þar til hún er öll hulin. Pönnukökurnar eiga að vera næfurþunnar.
- Steikið pönnukökurnar í um 1/2–1 mínútu á hvorri hlið og skellið síðan á disk og sykrið. Síðan er það matsatriði hvort þið borðið þær bara sykraðar eða með sultu og rjóma. Mér finnst þær bestar bara sykraðar. Vel sykraðar.