Þá er komið að því. Heill mánuður með lakkrísþema.
Ég elska lakkrís meira en lífið sjálft og vildi bara gera gúmmulaði með alvöru lakkrísbragði. Sérstaklega eftir að ég gerði minn eigin lakkrís og hann var svo miklu meira gordjöss en lakkrís út úr búð.
Þess vegna nota ég nær eingöngu lakkrísvörurnar Lakrids by Johan Bülow í þessum mánuði en þær fékk ég í Epal. Vörurnar frá lakkrískónginum Johan eru svo dásamlegar að orð fá því varla lýst. Alvöru lakkrísbragð og brjálæðislega vandaðar vörur sem er hreinn unaður að baka með. Ég lofa að kóngurinn af lakkrísheimi svíkur ykkur sko ekki og ég mana ykkur til að prófa vörurnar hans.
Svo er líka lakkrísþema í október út af því að minn heittelskaði á afmæli í október og hann er alveg jafn mikill lakkrísgrís og ég – jafnvel meiri!
Þessi fyrsta uppskrift í októbermánuði er af súkkulaðibrúnku með lakkrísdufti og dásamlegu súkkulaði- og lakkrískremi.
Þessi er stórkostleg!
|
|
- 225g dökkt súkkulaði
- 150g smjör
- 3 stór Nesbú-egg
- 150g sykur
- 150g Kornax-hveiti
- 1tsk vanilludropar
- 1/2tsk sjávarsalt
- 2-3msk lakkrísduft frá Johan Bülow
- 75g smjör
- 100g síróp
- 75g sykur
- 24g kakó
- 2tsk vanilludropar
- 300ml rjómi
- 2msk lakkrísduft frá Johan Bülow
- Hitið ofninn í 175°C og setjið bökunarpappír í kassalaga form þannig að pappírinn kemur aðeins upp með köntunum svo auðveldara verði að fjarlægja kökuna úr forminu.
- Bræðið súkkulaði og smjör saman í potti eða örbylgjuofni. Leyfið blöndunni aðeins að kólna og hrærið síðan egg og sykur saman við.
- Blandið síðan hveiti og vanilludropum saman við og því næst lakkrísduftinu og saltinu. Ég setti þrjár matskeiðar af duftinu því ég vil hafa mikið lakkrísbragð.
- Setjið deigið í formið og bakið í 15 til 20 mínútur í miðjum ofninum. Leyfið kökunni að kólna áður en kremið er sett á.
- Setjið öll hráefni í pott nema lakkrísduft og leyfið þessu að malla yfir lágum hita í 30 til 45 mínútur, eða þar til blandan er orðin þykk. Hér þarf ekki að hræra mikið í blöndunni eftir að hún nær suðu.
- Takið pottinn af hellunni og blandið lakkrísduftinu út í. Hellið yfir kökuna og leyfið kökunni að standa í ísskáp í að minnsta kosti klukkustund. Best er hún ef hún fær að standa í ísskáp yfir nótt áður en hún er étin upp til agna.