Jæja krakkar. Það kom eiginlega ekkert annað til greina en að þessi sykurgúmmulaðiofurbomba myndi ljúka þessum ljúffenga septembermánuði. Ég veit ekki með ykkur en september er búinn að vera uppáhaldsmánuðurinn minn það sem af er árinu – og ekki bara út af því að ég á afmæli í september.
Þessi kaka er yfirnáttúruleg. Hún er svo góð að það er ekki hægt að lýsa því með orðum. Og uppskriftin er svo einföld að það er liggur við hægt að hræra í þessa með annarri hendi. Og gera alla orðlausa í næsta matarboði.
Prófiði bara – þið verðið ekki söm eftir þessa köku.
Mars- og Malteserssprengja
|
|
Hráefni
Kaka
- 125g Kornax-hveiti
- 1/2tsk salt
- 2 tsk lyftiduft
- 113g mjúkt smjör
- 110g ljós púðursykur
- 55g púðursykur
- 55g sykur
- 3 Nesbú-egg
- 1 1/2tsk vanilludropar
- 300g Mars
Krem
- 110g sykur
- 2msk síróp
- 113g smjör
- 2msk rjómi
- 2tsk vanilludropar
Leiðbeiningar
Kaka
- Hitið ofninn í 170°C og smyrjið form. Ég notaði lítið og sætt 18 sentímetra hringlaga form.
- Blandið hveiti, salti og lyftidufti saman í skál og setjið til hliðar.
- Blandið smjöri, ljósum púðursykri, púðursykri og sykri saman í annarri skál. Bætið eggjunum við, einu í einu og síðan vanilludropunum.
- Blandið hveitiblöndunni vel saman við.
- Skerið Mars-ið í bita og blandið því út í deigið.
- Setjið deigið í form og bakið í 25 til 35 mínútur - allt eftir stærð formsins. Þessi er eins og kladdkakan - ekki reyna að taka hana af formbotninum. Leyfið kökunni að kólna alveg áður en kremið er sett á.
Krem
- Blandið sykri og sírópi saman í potti yfir lágum hita. Hrærið stanslaust þar til blandan er orðin á litinn eins og ljós karamella en það tekur smá stund.
- Bætið smjöri og rjóma saman við og hrærið vel saman við.
- Takið blönduna af hellunni og bætið vanilludropunum saman við.
- Leyfið kreminu að kólna aðeins og hellið síðan yfir kökuna. Skreytið með risastórum poka af Maltesers og hafið sófann tilbúinn fyrir sykursjokkið.