Gott skot er gulls ígildi. Of mörg góð skot eru hins vegar ávísun á virkilega vondan morgun eftir. Ég hef alltaf verið pínu svag fyrir einu og einu Jägermeister-skoti og því stóðst ég ekki mátið að prófa að baka Jägermeister-bollakökur.
Þessar eru helvíti öflugar og finnur maður vel fyrir Jägermeisternum í kreminu þó áfengið verði aldrei yfirþyrmandi. Ég mæli með þessum í partíið – þær eiga eftir að gera veislugestina glaða, meira að segja þá sem hata Jägermeister.
Jägermeister-bollakökur sem koma þér í gírinn
|
|
Hráefni
Kökur
- 125g smjör
- 125g sykur
- 2 Nesbú-egg
- 125g Kornax-hveiti
- 2tsk lyftiduft
- 2 msk sætt lakkríssíróp frá Johan Bülow(má sleppa)
- 125ml mjólk
- 1tsk ferskur sítrónusafi
Krem
- 100g mjúkt smjör
- 3-4bollar flórsykur
- 1tsk vanilludropar
- 1tsk salt
- 3-5msk Jägermeister(eftir því hvað þið viljið sterkt bragð)
Leiðbeiningar
Kökur
- Byrjið á því að brúna smjörið. Eitthvað sem ég hef áður farið yfir hér á síðunni. Setjið smjör í pott og bræðið það yfir miðlungshita. Passið að hræra stanslaust í smjörinu. Leyfið smjörinu að sjóða en þá myndast loftbólur og blandan gefur frá sér hljóð sem minna helst á brothljóð. Það gerist því vatnið er að gufa upp úr smjörinu. Leyfið því að malla í pottinum þangað til brothljóðin minnka og loftbólur hætta að myndast. Þá kemur froða á yfirborð smjörsins og litur þess breytist úr gulum í ljósbrúnan og loks dökkbrúnan. Þetta tekur um átta til tíu mínútur en passið ykkur - smjörið getur brunnið við á nokkrum sekúndum. Um leið og smjörið er orðið dökkbrúnt og lyktin af því minnir á karamellu þá er það tilbúið. Takið pottinn af hellunni og hellið smjörinu í skál.
- Kælið smjörið aðeins við stofuhita og setjið það síðan inn í ísskáp þar til það er orðið að mjúkum massa.
- Hitið ofninn í 180°C og takið til 12 möffinsform. Hrærið smjör og sykur mjög vel saman.
- Bætið eggjunum saman við og hrærið vel.
- Blandið hveiti og lyftidufti saman og blandið því síðan saman við smjörblönduna.
- Bætið restinni af hráefnunum saman við og hrærið vel.
- Deilið deiginu á milli möffinsforma og bakið í 20 mínútur. Kælið kökurnar alveg.
Krem
- Þeytið kremið í 4-5 mínútur og bætið síðan flórsykrinum út í og hrærið.
- Blandið restinni af hráefnunum saman við og hrærið vel saman. Ef kremið er of þykkt bætið þið smá mjólk saman við.
- Skreytið kökurnar með kreminu og ég drissaði smá lakkrísskrauti yfir fyrir meira lakkrísbragð.