Ég er stundum spurð hvað mér finnst skemmtilegast að baka. Það finnst mér alltaf jafn erfið spurning. Ég get ekki gert uppá milli barnanna minna.
Hins vegar hef ég lengi vel verið mjög svag fyrir að baka smákökur. Kannski út af því að þegar ég var lítil fékk ég alltaf að hjálpa mömmu í smákökubakstri. Það var aðeins erfiðara fyrir smábarn að hjálpa til við að hlaða í eitt stykki marens. Svo eftir að ég varð fullorðin – sem gerðist samt bara fyrir korteri – finnst mér smákökubakstur enn skemmtilegri því ég get leyft dóttur minni að taka mjög svo virkan þátt í ferlinu.
Þessi uppskrift er svo langt frá því að vera flókin að það hálfa væri nóg. Og krakkarnir geta svo sannarlega hjálpað. Þessi uppskrift er líka í fínni stærð en ykkur er samt alveg óhætt að tvöfalda hana. Af hverju? Jú, þessar litlu dúllur eiga eftir að hverfa á núll einni.
|
|
- 225g mjúkt smjör
- 1 bolli púðursykur
- 1/4bolli sykur
- 1 tsk vanilludropar
- 2 egg
- 2 1/2 bolli Kornax-hveiti
- 1tsk matarsódi
- 1/4tsk salt
- 1 bolli karamellukurl
- 1 bolli grófsaxað hvítt súkkulaði
- Hitið ofninn í 190° og setjið bökunarpappír á ofnskúffur.
- Blandið smjöri, púðursykri og sykri mjög vel saman. Bætið því næst vanilludropunum útí.
- Blandið eggjunum saman við, einu í einu.
- Blandið hveiti, matarsóda og salti saman í skál. Blandið þeirri blöndu síðan varlega saman við smjörblönduna.
- Að lokum er karamellukurli og hvítu súkkulaði blandað saman með sleif.
- Gerið litlar kúlur úr deiginu og raðið á ofnskúffurnar með fínu millibili. Bakið í akkúrat 10 mínútur, þó kökurnar virðist vera of lítið bakaðar - þær eiga að vera svona.