Ef það er eitthvað sem ég gjörsamlega dýrka þá eru það franskar vöfflur. Þið vitið, sem voru alltaf seldar í bakaríum en eru nánast útdauðar?
Franskar vöfflur eru náttúrulega bara smjör ofan á smjör ofan á smjör en það er eitthvað við þær sem er gjörsamlega dásamlegt.
Ég fann uppskrift að frönskum vöfflum í einhverjum eldgömlum uppskriftarbæklingi sem ég man ómögulega hver gaf út. En þessi uppskrift klikkar aldrei og er frekar einföld.
Ég geri mínar frönsku vöfflur yfirleitt frekar smáar, miklu minni en þær voru í bakaríunum hér í den, einfaldlega vegna þess að þær eru mjög saðsamar og smjörmiklar. Og út af því að mig langaði í smá lit í lífið þá hafði ég smjörkremið annaðhvort bleikt eða blágrænt og skreytti súkkulaðið með kökuskrauti.
Ég vona að þið njótið þessara unaðshnoðra eins mikið og ég!
Gömlu, góðu frönsku vöfflurnar
|
|
Hráefni
Deig
- 250g smjör(kalt)
- 250g hveiti
- 1dl rjómi(þeyttur)
- 1 eggjahvíta
- sykur
Krem og toppur
- 100g mjúkt smjör
- 200g flórsykur
- 3-4msk hlynsíróp
- 1tsk vanilludropar
- 200g súkkulaði
- kökuskraut(ef vill)
Leiðbeiningar
Deig
- Myjið smjörið út í hveitið og hnoðið þar til allt er vel blandað saman. Bleytið upp í þessu með þeytta rjómanum og hnoðið vel saman.
- Setjið deigið inn í ísskáp í að minnsta kosti klukkutíma. Fletjið deigið þykkt út, mótið kringlóttar kökur með glasi og fletjið betur út í aflangar kökur.
- Setjið kökurnar á bökunarplötu, prikkið í þær með gaffli, penslið með eggjahvítu og stráið sykri yfir. Bakið við 180-220°C í um það bil 10 mínútur.
Krem og toppur
- Þeytið smjörið í 4-5 mínútur. Bætið flórsykri, hlynsírópi og vanilludropum saman við og hrærið vel.
- Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni í 30 sekúndna hollum.
- Smyrjið annan helminginn af vöfflunum með smjörkreminu og búið til samlokur. Dýfið kökunum í súkkulaði og skreytið. Leyfið súkkulaðinu að storkna og njótið.