Ég hef haft þann sið að leyfa krökkunum að taka eins mikinn þátt í eldhúsinu og þau eru fær um á hverju aldursskeiði.

Hún Amelía mín varð tíu ára í byrjun árs og hefur jafnt og þétt fengið að prófa og gera meira í eldhúsinu með mér. Nú er svo komið að hún er orðin nánast sjálfbjarga í eldhúsinu. Ég er hins vegar aldrei langt undan þegar hún bakar, svona ef einhverjar spurningar vakna. Einnig reyni ég ef ég mögulega get að segja alltaf já þegar hún vill baka og ef vantar einhver hráefni sem ekki er hægt að leysa með öðrum hráefnum sem eru til, þá þarf hún alltaf að koma sér sjálf í búðina og kaupa inn. Svo þarf hún auðvitað að þrífa eftir sig, sem hún gerir nánast alltaf.

Síðustu vikur hefur bakstursáhuginn farið í fimmta gír hjá henni Amelíu minni og biður hún mjög oft um að baka. Í páskafríinu bakaði hún meira að segja fimm daga í röð. Heppnir foreldrar! Það sem henni finnst skemmtilegast að baka eru súkkulaðibitakökur og hefur hún unnið í því að fullkomna uppskriftina sína að þeim bestu sem ég hef á ævi minni smakkað.

Ég fékk því leyfi hjá Amelíu til að birta uppskriftina að kökunum hennar hér á blogginu og gera hana að sérlegum gestabloggara. Ég býst fastlega við því að þetta verði ekki fyrsta og eina uppskriftin sem Amelía fær birta hér á Blaka.

Ég hlakka mikið til framtíðarinnar með þessum baksturssnillingi!


Fullkomnar smákökur úr smiðju fullkominnar dóttur
Hráefni
Leiðbeiningar
  1. Hitið ofninn í 175°C og klæðið ofnplötur með smjörpappír. Úr þessari uppskrift fást 48 litlar kökur eða 25 stórar.
  2. Blandið hveiti, matarsóda og salti saman í skál. Þeytið saman smjör, sykur og púðursykur í annarri skál.
  3. Blandið eggi og vanilludropum saman við smjörblönduna. Blandið síðan þurrefnunum saman við.
  4. Blandið síðan súkkulaðinu saman við með sleif eða sleikju.
  5. Gerið kúlur úr deiginu og raðið á plöturnar. Gott er að fletja kúlurnar aðeins út með lófanum. Bakið í 8 til 10 mínútur og leyfið þeim síðan að kólna áður en þið rífið þær í ykkur.

Umsagnir

Umsagnir