Loksins er hann runninn upp – afmælismánuðurinn minn! Ég er búin að bíða eftir honum í heilt ár og get ekki beðið eftir að verða aðeins eldri.
Ég ákvað að hafa þemað í afmælismánuðinum mínum kaffi því ég elska svart kaffi. Á erfitt með að byrja morguninn án þess. Sem er skrýtið því ég byrjaði ekki að drekka kaffi fyrr en fyrir þremur árum.
Ég ætla að byrja á mjög einfaldri uppskrift að kaffipönnukökum. Hér er ég að vinna með mjög dauft kaffibragð sem gerir þessar pönnukökur alveg dúnmjúkar. Og ef maður sleppir kaffinu og skiptir því út fyrir mjólk þá eru þetta bara mjög hefðbundnar, amerískar pönnukökur. Njótið!
Dúnmjúkar kaffipönnukökur
|
|
Hráefni
- 1bolli Kornax-hveitit
- 1tsk lyftiduft
- 1tsk matarsódi
- 1/4tsk salt
- 1/2bolli sýrður rjómi
- 1/2bolli sterkt kaffi
- 1 Nesbú-egg
- 2msk brætt smjör
Leiðbeiningar
- Hrærið hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti vel saman í skál.
- Blandið síðan sýrða rjómanum, sterku kaffinu, egginu og smjörinu vel saman við. Ef ykkur finnst blandan of þykk er lítið mál að bæta við smá meira kaffi eða mjólk.
- Hitið pönnu á háum hita og bræðið smjör á henni. Skiptið niður í meðalhita og steikið hverja pönnuköku í um 2-3 mínútur á hvorri hlið. Berið fram volgar með smjöri og sírópi. Og auðvitað kaffibolla!