Í dag er 19. júní – sjálfur kvenréttindadagurinn. Því fannst mér vel við hæfi að skella í bleikar bollakökur á þessum degi og enn meira við hæfi að hafa það fallega bleik brjóst svona í ljósi þess að vitundarvakningin Free the Nipple, eða frelsun geirvörtunnar, stendur sem hæst.
Kannski eignast ég barn í dag, kannski ekki. Litla stúlku sem hefði átt að koma í heiminn fyrir viku síðan en lætur bíða eftir sér og gerir mömmu sína brjálaða. Ég vil ekki að hún alist upp í heimi þar sem konum finnst óþægilegt að gefa börnunum sínum brjóst, og jafnvel mega það ekki á almannafæri, og ógeðslegt að bregða sér úr brjóstahaldaranum á góðum sólardegi og leyfa sólargeislunum að kyssa sig. En fyrst og fremst vil ég ekki að hún alist upp í heimi þar sem hefndarklám er talið lítilfjörlegt og fær að viðgangast.
Þessi uppskrift er ofsalega einföld og kökurnar mjög sléttar og felldar – engar krúsídúllur eða óvæntur glaðningur í miðjunni. En stundum þarf bara einfaldleikann til að berjast fyrir því sem maður hefur trú á og ekki missa sjónar á því sem áunnist hefur. Til hamingju með daginn allir Íslendingar!
|
|
- 225g sykur
- 175g Kornax-hveiti
- 1 1/2tsk lyftiduft
- 1/2tsk matarsódi
- 1/2 tsk salt
- 60g mjúkt smjör
- 2 egg
- 75g sýrður rjómi(minnst 10%)
- 60ml olía
- 1msk vanilludropar
- 160ml nýmjólk
- 50g mjúkt smjör
- 3bollar flórsykur
- 2tsk vanilludropar
- 5-6msk rjómi
- rauður matarlitur
- hlaup til að skreyta
- Hitið ofninn í 175°. Blandið þurrefnum saman við smjörið þar til blandan er orðin að mulningi.
- Blandið eggjum, sýrðum rjóma, olíu og vanilludropum vel saman í annarri skál.
- Blandið eggjablöndunni við þurrefnablönduna og hrærið vel.
- Síðan er mjólkinni bætt varlega saman við og allt blandað saman. Deiginu deilt í möffinsform og kökurnar bakaðar í 15 til 20 mínútur. Kælið kökurnar alveg áður en kremið fer á.
- Blandið smjöri og flórsykri vel saman.
- Bætið dropum og rjóma saman við og því næst matarlitnum. Hér er hægt að bæta meira rjóma við ef ykkur finnst kremið of þykkt.
- Skellið kreminu á kökurnar og veljið ykkur nammigeirvörtur til að ljúka við meistaraverkið.