Stundum skapar maður eitthvað í eldhúsinu sem er svo gott að maður trúir því ekki að nokkur maður geti staðist það. Þessi brúnka er gott dæmi um slíkt sköpunarverk.
Þessi uppskrift er svo einföld að api gæti farið eftir henni og svo er alltaf góður kostur við brúnkur að maður þarf ekki einu sinni að taka fram hrærivélina en ég þeyti deigið alltaf í höndunum svo það ofþeytist ekki. Þannig helst brúnkan blaut og djúsí þegar búið er að baka hana.
Og til að gera hefðbundna brúnku aðeins betri þá er bjór í þessari. Við hötum það ekki!
Bjórbrúnka með bjórglassúr
|
|
Hráefni
Brúnka
- 115g brætt smjör
- 1 1/2bolli sykur
- 1 stórt Nesbú-egg
- 1tsk vanilludropar
- 3/4bolli Egils Gull-bjór
- 1/4bolli olía
- 1 1/2bolli Kornax-hveiti
- 1bolli kakó
- 1/2tsk matarsódi
- 1/2tsk salt
- 16 Oreo-kex með hnetusmjöri
Glassúr
- 1bolli flórsykur
- 1tsk hlynssíróp
- 2-3msk Egils Gull-bjór
Leiðbeiningar
Brúnka
- Hitið ofninn í 160°C og takið til brúnkuform - kassalaga form sem er ca 20 sentímetrar að stærð.
- Blandið smjöri og sykri vel saman og hrærið því næst eggi saman við.
- Blandið vanilludropum saman við og síðan olíu og bjór. Þeytið vel.
- Blandið þurrefnum saman í annarri skál og hrærið þær síðan varlega saman við smjörblönduna.
- Hellið 1/3 af deiginu í formið og raðið Oreo-kexkökunum síðan ofan á deigið. Hellið restinni af deiginu því næst ofan á kexið og passið að deigið hylji kexið. Bakið í 35-40 mínútur.
Glassúr
- Blandið öllum hráefnum vel saman og hellið yfir kökuna.