Ég hef lengi ætlað að baka beyglur og lét loksins slag standa um daginn. Og ég sé sko ekki eftir því.

Ég á eflaust eftir að baka beyglur oft og mörgum sinnum héðan í frá því ég var svo svakalega ánægð með árangurinn. Sama hvað beyglur út í búð eru góðar, eru nýbakaðar og volgar beyglur algjörlega ómótstæðilegar! Þessar geymast ágætlega í nokkra daga en svo er líka hægt að smella þeim í frysti til að njóta þeirra seinna, til dæmis með því að skella þeim í brauðristina.

Það er í raun enginn sérstakur vandi að baka beyglur. Það eina sem vafðist fyrir mér var að láta þær líta vel út og ég er fyrst til að viðurkenna að þessar beyglur mínar eru ekkert þær fallegustu í bransanum. En það skiptir engu máli – þær voru svo afskaplega ljúffengar.

Ég ákvað að prófa að baka beyglur með kanil og hlynsírópi þannig að þessar eru pínu spari. Þær slógu rækilega í gegn á heimilinu og var heimilisfólkið duglegt við að stelast í þær allan daginn þar til þær voru búnar. Þær eru nefnilega rosalega góðar eintómar, en auðvitað jafnast ekkert á við volgar beyglurnar með smjöri og osti. Nú, eða bara hverju sem er!

Þannig að næst þegar ykkur langar að baka eitthvað geggjað, til dæmis fyrir helgarbrönsjinn, þá mæli ég með þessari uppskrift. Hún er ofboðslega einföld og á ekki eftir að valda ykkur vonbrigðum. Svo hvet ég ykkur til að leika ykkur með beygluuppskriftir en þið getið alveg bókað það að ég á eftir að birta fleiri slíkar uppskriftir á þessari síðu í nánustu framtíð. Ég er nefnilega orðin alveg beygluóð.

Nú hlakka ég bara til að baka þessar aftur og aftur og reyna að gera þær fegurri í hvert einasta sinn.

Nammi, nammi, namm!

 

Geggjaðar beyglur með kanil og hlynsírópi
Hráefni
Leiðbeiningar
  1. Blandið 2 matskeiðum af púðursykri saman við þurrger og hálfan bolla af volgu vatni og látið standa í 5-7 mínútur, eða þar til blandan er farin að freyða.
  2. Blandið hinum 2 matskeiðunum af púðursykri saman við hveiti, salt og kanil í stórri skál.
  3. Blandið síðan gerblöndunni saman við hveitiblönduna, sem og 1/4 bolla af volgu vatni, hlynsírópi, vanilludropum og einu eggi.
  4. Skellið deiginu á borðplötu sem búið er að dusta með hveiti og hnoðið. Ef deigið er of þurrt er hægt að bæta 1/4 bolla af volgu vatni smátt og smátt saman við. Ef deigið verður of blautt má bæta smá meira hveiti saman við.
  5. Setjið deigið aftur í skálina og hyljið hana með hreinu viskastykki. Leyfið deiginu að hefast í um eina klukkustund.
  6. Setjið vatn í pott og látið koma upp suðu. Hitið ofninn í 220°C.
  7. Skiptið deiginu í 8 til 10 parta og mótið beyglur úr hverjum parti. Þegar vatnið bullsýður, sjóðið þið hverja beyglu í 1 til 2 mínútur á hverri hlið og raðið síðan á smjörpappírsklædda ofnplötu.
  8. Þeytið eggið sem var eftir og penslið beyglurnar með því. Stráið síðan kanilsykri yfir þær.
  9. Bakið beyglurnar í 20-25 mínútur og finnið unaðsilminn fylla eldhúsið.

Umsagnir

Umsagnir