Ég þoli ekki að henda mat og reyni því alltaf að finna upp á nýjum og spennandi leiðum til að nýta banana sem eru á síðasta snúningi.
Ég ákvað að blanda saman bananabrauði og súkkulaðiköku því við skulum bara horfast í augu við sannleikann – bananabrauð er bara kaka. Hættið að ljúga að ykkur sjálfum! Svo átti ég smá M&M með hnetusmjöri úr fríhöfninni og ákvað að henda því ofan á til að láta þetta líta aðeins meira út eins og kaka. Eins og að setja þetta gums í hringlaga form væri ekki nóg! Það er að sjálfsögðu hægt að drissa súkkulaðispænum yfir kökuna í staðinn fyrir M&M – M&M-ið er bara svo fallegt! Og það er fátt betra saman en bananar og hnetusmjör #mínskoðun.
Bananabrauð - dýrari týpan
|
|
Hráefni
- 3 vel þroskaðir bananar
- 150g bráðið smjör
- 120g púðursykur
- 1tsk vanilludropar
- 1 egg
- 150g hveiti
- 35g kakó
- 1/4tsk salt
- 1tsk matarsódi
- 1/2bolli súkkulaðibitar
- 1/4bolli M&M með hnetusmjöri(eða súkkulaðibitar)
Leiðbeiningar
- Hitið ofninn 175°C og takið til form sem þið viljið nota.
- Maukið bananana og blandið þeim saman við smjörið, púðursykur, vanilludropa og eggið.
- Blandið hveiti, kakói, salti og matarsóda saman við og því næst súkkulaðibitunum.
- Setjið blönduna í form og dreifið M&M-i yfir. Ég setti mína blöndu í frekar stórt hringlaga form og bakaði hana í 25 mínútur. Ef þið setjið deigið í brauðform þarf það alveg góðar 45 mínútur. P.S. Yfirleitt á maður að taka kökur og brauð úr ofninum þegar ekkert deig fylgir með á prjóni sem stungið er í miðjuna. Í þessu tilviki má „brauðið“ vera pínulítið blautt.