Hér kemur ein gömul og góð sem móðir mín bakaði alltaf fyrir jólin. Hún sleppti hins vegar alltaf öllu óþarfa skrauti – eins og Smarties og nammi.
Ég er mikil skrautkona og því skreyti ég nánast allar mínar kökur með einhverju ef ég sé tækifæri til þess. Þessar kökur er æðislegt að baka með börnunum og finnst þeim alveg tjúllað að setja Smarties-ið á. Blessuð börnin.
Í uppskriftinni hér fyrir neðan tek ég aðeins fram Smarties til að skreyta en eins og þið sjáið á myndunum mínum notaði ég ýmislegt tilfallandi til að skreyta – til dæmis confetti og Hello Kitty-súkkulaðikúlur sem ég átti inní skáp. Boðskapurinn er: Missið ykkur í skrauti!
Súkkulaðibitakökur
|
|
Hráefni
- 200g mjúkt smjör
- 1bolli sykur
- 1/2bolli púðursykur
- 2 egg
- 2bollar hveiti
- 2bollar kókosmjöl
- 1tsk matarsódi
- 1 tsk salt
- 2tsk vanilludropar
- 200g súkkulaði, saxað
- Smarties til að skreyta
Leiðbeiningar
- Blandið öllu vel saman nema súkkulaðinu.
- Grófsaxið súkkulaðið og bætið því út í deigið með sleif. Gott er að geyma deigið inni í ísskáp í um klukkutíma áður en baksturinn hefst.
- Hitið ofninn í 180°C. Mótið kúlur með höndunum og setjið á ofnskúffu sem búið er að klæða með bökunarpappír. Fletjið kúlurnar aðeins með lófanum og skreytið með Smarties. Bakið í 12 til 15 mínútur.