Jæja. Ég setti það í dóm Snapchat-hersins míns um daginn hvort ég ætti að búa til snúða úr krækiberjunum mínum eða ostaköku. Snúðar höfðu vinninginn þannig að ég gat ekki skorast undan þeirri áskorun.

Þessir snúðar eru algjörlega dásamlegir og í sjálfu sér hægt að fylla þá með hverju sem er. Út af því að ég átti alltof mikið af krækiberjum, ákvað ég að skella þeim inní snúðana, ásamt yndislegri rifsberjasultu sem móðir mín gerir. Ég held að það væri líka algjört dúndur að fylla þessa með bláberjum og bláberjasultu. Það er sko næst á dagskrá!

Snúðar af hverju tagi eru mikið í uppáhaldi hjá mér og það sem mér finnst einna best við þessa snúða er að þeir þurfa ekki að lyfta sér í heila eilífð. Þannig að það má segja að þetta séu fullkomnir snúðar fyrir óþolinmóða fólkið (lesist: mig).

Ég veit fátt betra um helgar en að byrja daginn á að hnoða í eitt stykki snúðadeig og eiga heitt á könnunni og ylvolgt bakkelsi ef einhver kemur óvænt í heimsókn – sem gerist merkilega oft! Ætli fólk sé farið að taka þessum bakstri mínum sem sjálfsögðum hlut?!

En nóg af blaðri og þvaðri – hér koma snúðarnir mínir með krækiberjum og rifsberjasultu. Fullkomið haustlostæti sem lætur manni líða vel!

Sjá einnig:

Krækiberjaís

Krækiberjamúffur

Hveitilaus krækiberjakaka


Snúðar með krækiberjum og sultu
Hráefni
Deig
Fylling
Leiðbeiningar
Deig
  1. Blandið geri, vatni, sykri og salti saman í skál og látið bíða í 10 mínútur, eða þar til blandan er byrjuð að freyða og tútna út.
  2. Blandið smjöri, eggi og vanillusykri síðan vel saman við.
  3. Blandið hveitinu smátt og smátt saman við þar til deigið er hætt að vera klístrað. Kannski þurfið þið minna en 4 bolla og kannski örlítið meira, eins og sirka hálfan bolla í viðbót.
  4. Setjið deigið til hliðar á hlýjan stað, setjið hreint viskastykki yfir það og leyfið því að hvíla í um 10 mínútur.
Fylling
  1. Blandið öllum hráefnum nema smjörinu og möndlunum vel saman í skál.
  2. Dustið smá hveiti á vinnuflötinn ykkar og fletjið deigið út í ferhyrning.
  3. Smyrjið smjörinu jafnt yfir deigið og dreifið síðan fyllingunni yfir.
  4. Rúllið deiginu upp og skerið í litla snúða.
  5. Takið til ofnskúffu og smyrjði botninn með smjöri. Raðið snúðunum á plötuna.
  6. Setjið viskastykki yfir snúðana og leyfið þeim að hefast á hlýjum stað í um 40 mínútúr.
  7. Stillið ofninn á 175°C og stráið möndlubitum yfir snúðana. Bakið í 25-30 mínútur, eða þar til snúðarnir hafa tekið fallegan, gylltan lit.

Umsagnir

Umsagnir