Jæja, krakkar. Ég er ekki enn búin með öll krækiberin mín! Ég er samt að reyna eins og ég get að töfra fram dásamlegar krækiberjakræsingar í hverri viku en það er eins og það bætist alltaf við í dunkinn! En, nóg um það. Ég verð að segja ykkur frá þessum krækiberjaís sem ég dúndraði í um helgina!

Ég er alveg hætt að nenna að þeyta einhver egg og vesen þegar ég bý til ís. Núna treysti ég eingöngu á sætu dósamjólkina (sweetened condensed milk) í ísgerðina. Og hún klikkar ekki og tryggir að ísinn verði mjúkur og góður þegar hann er tekinn úr frystinum. Það er líka eitthvað við sætu mjólkina sem gerir mig alveg brjálaða. Mér finnst hún svo svakalega góð að ég get borðað hana eintóma! Ef þið trúið mér ekki, get ég sýnt ykkur skurðinn á puttanum mínum sem ég fékk eftir að hafa kafað aðeins of stíft ofan í dósina! Plís, ekki dæma mig!

Þessi krækiberjaís er alveg fáránlega einfaldur en svakalega bragðgóður. Við vitum öll að krækiberin eru ekkert sérstaklega bragðmikil. Ef þau væru persóna, væru þau frekar „boring“ eins og maður segir á ensku. Þannig að ég sauð þau niður með smá sykri og sítrónusafa til að gefa þeim aðeins meiri persónuleika. Og það svona líka svínvirkaði!

Ég mæli hiklaust með þessum krækiberjaís því maður er enga stund að vippa honum upp. Erfiðasti parturinn er bara að bíða eftir því að hann frjósi í gegn! Svo er hann yndislega fallegur á litinn þessi ís og fer vel á hvaða veisluborði sem er. Og ef þið eruð að spá í að splæsa í svona ísform, þá fékk ég þessi í Kosti en ég hef líka séð ísform í Hagkaupum.

Njótið elsku dúlludúskarnir mínir!


Krækiberjaís sem hressir, bætir og kætir
Hráefni
Leiðbeiningar
  1. Byrjið á því að setja krækiber, sykur og sítrónusafa í pott og ná upp suðu yfir meðalhita.
  2. Leyfið blöndunni að malla í 8-10 mínútur og þrýstið aðeins á krækiberin við og við svo þau springi.
  3. Hellið blöndunni í skál og látið kólna alveg í ísskáp.
  4. Stífþeytið rjómann og flórsykurinn. Blandið því næst sætu mjólkinni saman við með sleif eða sleikju.
  5. Síðan blandið þið krækiberjablöndunni saman við. Mér finnst skemmtilegt að hræra bara smá svo skemmtilegt mynstur skapast í ísinn, en þið ráðið þessu alveg.
  6. Skellið blöndunni í gott ílát og frystið í 6-8 tíma. Njótið!

Umsagnir

Umsagnir