Ég er svo heppin að vera í fjölskyldu með konu, nánar tiltekið konu frænda míns, sem bakar heimsins bestu pylsuhorn. Þessi pylsuhorn fæ ég einu sinni á ári og hlakka alltaf til stundarinnar sem ég get hámað þau í mig.

En einu sinni á ári er auðvitað ekki nóg. Í fullkomnum heimi væru pylsuhorn á boðstólnum alla daga. Þannig að ég ákvað að prófa að henda í mína útgáfu af pylsuhornum, heimilisfólkinu til mikillar gleði.

Þessi eru auðvitað ekki nærri því jafngóð og heimsins bestu pylsuhorn en ég gerði allavega heiðarlega tilraun til að apa þau eftir. Ekki misskilja mig, pylsuhornin mín voru alveg hreint ágæt og kláruðust á sirka 10 mínútum heima hjá mér, þannig að ég get alveg ábyrgst það að uppskriftin er góð.

Svo má líka benda á að það er hægt að leika sér með fyllingar í deiginu og þarf ekkert endilega að nota pylsur. Það má til dæmis fylla hornin með smurosti, skinku, pepperoni, aspas, sveppum eða einhverju öðru gómsætu. Endilega leyfið ímyndunaraflinu að leika lausum hala!

Og verði ykkur að góðu!


Pylsuhorn sem gera allt betra
Hráefni
Leiðbeiningar
  1. Byrjið á að blanda geri, vatni og sykri saman og leyfið því að standa í 5-10 mínútur, eða þar til blandan byrjar að freyða.
  2. Bætið síðan smjöri og hveiti vel saman við, sem og saltinu. Hnoðið deigið vel og skellið því síðan í skál. Setjið viskastykki yfir skálina og leyfið deiginu að hefast í um klukkutíma.
  3. Hitið ofninn í 200°C og setjið smjörpappír á ofnplötur.
  4. Skiptið deiginu í 4-5 búta og fletjið hvern bút út í hring.
  5. Skerið hvern hring í 8 parta með pítsaskera þannig að 8 þríhyrningar myndist.
  6. Smyrjið hvern þríhyrning með sinnepi. Skerið pylsurnar í hæfilega stóra bita og setjið einn bita á hvern þríhyrning. Rúllið þríhyrningunum upp, byrjið frá breiða endanum, og brettið síðan aðeins upp á endana þannig að bitarnir líkist hornum.
  7. Raðið á ofnplötu. Blandið saman eggi og mjólk og penslið hornin með blöndunni. Stráið síðan sesamfræjum yfir.
  8. Setjið viskastykki yfir hornin og leyfið þeim aðeins að hvíla í um 10-15 mínútur.
  9. Skellið þeim síðan inn í ofn og bakið í 15-20 mínútur. Njótið vel og lengi!

Umsagnir

Umsagnir