Þessir klattar eru sko ekkert aprílgabb. Þetta er algjörlega skotheld uppskrift og ofureinföld þannig að hún getur alls ekki klikkað! Þvílík byrjun á poppmánuðinum mikla!
Ég notaði smá af Butterscotch-bitum í þennan unað en ef þið finnið þá ekki getið þið notað hvaða súkkulaði sem ykkur finnst gott. Reynið samt að finna Butterscotch-bita því þeir lyfta þessum klöttum upp í nýjar hæðir. Algjört lostæti sem maður getur hreinlega ekki hætt að borða! Nammið gerist ekki mikið betra en þetta.
Poppklattar sem þarf ekki að baka
|
|
Hráefni
- 2msk smjör
- 1/2bolli hnetusmjör
- 280g Sykurpúðar(mér finnst gott að nota þessa litlu)
- 1poki Orville Redenbacher's Naturals-örbylgjupopp(um það bil 10 bollar)
- 1/3bolli butterscotch-bitar
- 1/3bolli súkkulaðibitar
- 1/2tsk sjávarsalt
- 70g rjómasúkkulaði
Leiðbeiningar
- Byrjið á því að bræða smjör og hnetusmjör saman í stórum potti yfir lágum hita. Passið að hræra stanslaust í blöndunni svo hún brenni ekki við.
- Bætið sykurpúðunum út í og hrærið stanslaust þar til allt er vel blandað saman.
- Takið pottinn af hellunni og bætið poppi (passið að engar baunir fylgi með), Butterscotch-bitum, súkkulaðibitum og sjávarsalti saman við og hrærið vel. Hér eru hröð handtök nauðsynleg því blandan stífnar fljótt upp.
- Þrýstið blöndunni í ílangt form (ca 33 cm langt) sem þið eruð búin að klæða með bökunarpappír þannig að hann komi upp á hliðunum.
- Bræðið rjómasúkkulaðið og drissið ofan á blönduna. Leyfið þessu að jafna sig í um það bil klukkustund í ísskáp áður en þið hámið þetta í ykkur.