Ég er í svo miklu skreytingarstuði þessa dagana að þessi páskakaka varð bara að verða að veruleika. Ég er búin að velta henni fyrir mér fram og til baka, fá innblástur af internetinu, skoða kökuskraut í búðum marga daga í röð. Í fyrrakvöld fékk ég síðan smá næði til að bara hanga inn í eldhúsi og dunda mér. Og þá fæddist hún – þessi yndislega páskakaka. Tja, eða mér finnst hún allavega yndisleg. Það fór allavega rosalega mikil ást og umhyggja í gerð hennar og það skilar sér oftast.

Ég er farin að hafa meiri og meiri áhuga á kökuskreytingum, eitthvað sem var alls ekki náttúrulegt fyrir mér og ég alls ekki góð í. En ég er búin að vera að æfa mig mikið og ekki skemmir fyrir að ég hef verið að fá nokkrar sérpantanir þar sem maður þarf að vanda sig extra mikið.

Þannig að þetta er allt að koma og ég er afskaplega stolt af páskakökunni minni, þó ég segi sjálf frá. Mér finnst páskalitirnir svo undursamlegir og ákvað strax að hafa aðallitina hvítan, bleikan og gulan (döh!). Ég bakaði bara ósköp venjulega vanilluköku og þeytti hvítsúkkulaðikrem. Ég viðaði síðan að mér skrauti, flest sem ég gróf upp úr skúffunum heima. Síðan splæsti ég í eitt páskaegg númer 3, reif skrautið af því og skreytti það á minn hátt.

Ég veit að titillinn á þessari færslu er svolítið grófur þar sem fegurð er jú í auga þess sem horfir, en þið verðið bara að afsaka mig. Ætli maður geti orðið ástfanginn af köku? Jafnvel gifst henni?

Ég vona að þið hafið eins gaman að skoða myndirnar af þessari páskaköku minni. Ég allavega elska hana – vandræðalega mikið!


Fallegasta páskakaka ársins 2017 #mínskoðun
Hráefni
Kakan
Kremið
Leiðbeiningar
Kakan
  1. Hitið ofninn í 160°C og takið til tvö hringlótt form, ca 18 sentímetra að stærð. Smyrjið þau vel.
  2. Þeytið smjör og sykur saman í 5-10 mínútur þar til blandan er létt og ljós.
  3. Blandið restinni af hráefnunum saman við og hrærið þar til allt er blandað saman.
  4. Deilið deiginu á milli formanna. Deigið er frekar stíft þannig að það er smá mál að koma því í formin. Bakið í klukkutíma og leyfið að kólna alveg áður en kakan er skreytt.
Kremið
  1. Þeytið kremið í 5-6 mínútur og bætið síðan restinni af hráefnunum saman við.
  2. Skreytið kökuna að vild - notið fullt af skrauti, fullt af gleði og fullt af matarlit!

Umsagnir

Umsagnir