Mér finnst ofboðslega gaman að baka brauð. Mér fannst það ekki alltaf, en um leið og ég varð þokkalega góð í því þá elskaði ég það. Brauð er líka svo ofboðslega einfalt í bakstri, sérstaklega svona ljúffengt, ítalskt brauð.

Þetta brauð er líka svona fáránlega frábært því það er hægt að henda alls kyns stöffi sem maður á í ísskápnum, sem jafnvel liggur fyrir skemmdum, og troða því inn í dúnmjúkt, olíuborið deigið. Ókei, ókei, þetta er náttúrulega örugglega ekki ekta ítalskt brauð, en það á pottþétt einhvern fjarskyldan, ítalskan frænda.

Ég ákvað að fylla mitt brauð með skinku, svörtum og grænum ólífum, osti og parmesan og fannst það bara fyrirtak. Ég veit að mörg svona fyllt brauð eru einnig sósuð í sólþurrkuðum tómötum en mér finnst þeir svo afleitir á bragðið að ég get ekki gert matnum mínum að menga hann með þeim. Sorrí, með mig! Sem betur fer erum við ekki öll eins og smekkur manna er misjafn, þannig að þið auðvitað fyllið bara brauðið með því sem ykkur finnst gott. Það er það sem skiptir mestu máli.

Svona ítalskt brauð er fullkomið í morgunmat, eða í brönsj, og gefur einn svona hleifur vel af sér fyrir stóra fjölskyldu. Ég rek allavega stórt heimili og dugði brauðskammturinn vel ofan í alla og rúmlega það. Ég á nefnilega ofboðslega erfitt með að hemja mig þegar kemur að góðu brauði þannig að ég fékk þann vafasama titil að vera yfirgúffari þennan morguninn. Eins og svo oft áður.

Svo er líka frábær hugmynd að skella í eitt svona brauð ef maður er að fara í heimsókn eitthvert, því svona brauð eru þeim eiginlega gædd að gleðja nánast hvern sem er. Nema fólk sé náttúrulega hætt að borða brauð eða eitthvað svoleiðis vesen. Þá myndi ég strika þessa hugmynd út af hugmyndalistanum og bara éta brauðið allt sjálf.

Sama hvað þið gerið – þessi uppskrift er klassísk, skotheld og súper einföld!


Ómótstæðilegt ítalskt brauð
Hráefni
Deig
Fylling
Toppur
Leiðbeiningar
Deigið
  1. Hitið mjólkina og smjörið saman í örbylgjuofni þar til blandan er orðin volg og smjörið nánast bráðnað. Blandið þessu saman við vatnið, gerið og sjávarsaltið og leyfið þessu að bíða í um fimm mínútur, eða þar til blandan byrjar að freyða.
  2. Blandið síðan restinni af hráefnunum saman við og hnoðið vel saman. Smyrjið skál með örlítilli olíu og setjið deigið í hana. Setjið hreint viskastykki eða klút yfir skálina og leyfið deiginu að hefast í um klukkustund.
Fylling
  1. Fletjið deigið út og dreifið fyllingunni yfir. Rúllið deiginu síðan upp eins og þegar þið bakið kanilsnúða og færið rúlluna yfir á smjörpappírsklædda ofnplötu. Passið að snúa sárinu niður.
  2. Takið ykkur skæri í hönd og klippið í deigið hér og þar - þetta skref er ekki nauðsynlegt en gerir brauðið voða fallegt og leyfir fyllingunni að gægjast út hér og þar.
  3. Klæðið herlegheitin í plastfilmu og leyfið deiginu að hefast aftur í um 40 mínútur.
Toppur
  1. Hitið ofninn í 175°C. Takið plastfilmuna af deiginu og blandið öllu vel saman sem á að fara í toppinn. Í toppinn má að sjálfsögðu nota hvaða krydd sem er - fer allt eftir smekk.
  2. Penslið deigið vel með toppinum og setjið plötuna síðan inn í ofn í 35-40 mínútur, eða þar til brauðið er orðið fallega gullinbrúnt. Leyfið brauðinu aðeins að bíða, bara í nokkrar mínútur, og byrjið svo gúfferíið!

Umsagnir

Umsagnir