Ostakökuís – er eitthvað betra?
Auðvitað þurfti ég að umbreyta mínum eftirlætisrétti, ostakökunni, í ís og útkoman er vægast sagt stórfengleg! Þessi ís er léttur og ferskur en ofboðslega bragðsterkur og djúsí. Ég þakka rjómaostinum fyrir það!
Hér er um að ræða hinn fullkomna eftirrétt í sumar sem bætir lífið manns töluvert þegar að sólin skín.
Þessa uppskrift er að finna í bókinni minni, Minn sykursæti lífsstíll, en uppskriftin er einstaklega einföld, inniheldur fá hráefni og mettir ansi marga svanga maga.
Ostakaka + ís + bláber = Skotheld blanda!
Ofursumarlegur ostakökuís
|
|
Hráefni
Ís
- 2bollar rjómi
- 250g mjúkur rjómaostur
- 1 dós sæt dósamjólk(sweetened condensed milk - 397 g)
- 1/2tsk rifinn sítrónubörkur
Bláberjablanda
- 1 1/2bolli bláber(fersk eða frosin)
- 3msk vanillusykur
- 2msk vatn
- 1/2 tsk maíssterkja + 1 msk vatn
Leiðbeiningar
Ís
- Byrjið á því að taka til ílangt brauðform til að skella ísnum í. Þeytið svo rjómann og setjið til hliðar.
- Þeytið rjómaost, dósamjólk og börk vel saman í skál og bætið síðan rjómanum út í. Blandið honum varlega saman við með sleif eða sleikju.
- Skellið blöndunni í formið og fyrstið í 4 klukkustundir.
Bláberjablanda
- Setjið bláber, vanillusykur og 3 matskeiðar vatn í pott og eldið yfir meðalhita í 5-7 mínútur. Hér viljum við að bláberin springi og hægt er að hjálpa þeim með því að ýta á þau reglulega með viðarsleif.
- Blandið síðan maíssterkju og vatni saman í lítilli skál og bætið út í bláberjablönduna eftir þessar 5-7 mínútur. Sjóðið í eina mínútu til viðbótar.
- Takið pottinn af hellunni, hellið blöndunni í litla skál og kælið í ísskáp þar til ísinn er búinn að vera í frysti í 4 klukkustundir.
- Takið ísinn úr frystinum og dreifið bláberjablöndunni ofan á hann. Gott er að taka gaffall og dreifa blöndunni með honum til að hún nái aðeins undir yfirborðið. Setjið ísinn aftur í frysti yfir nótt.
- Ég mæli svo með því að bera þennan unaðslega ís fram með ferskum bláberjum og hafrakexmylsnu. Það er dúndur!