Vá, hvað er orðið stutt í jólin! Og eins og vanalega byrja ég jólabaksturinn á því að prófa nokkrar tegundir, þróa, baka meira, sleikja sleifar og hugsanlega finna nýja smákökusort sem festir sig í sessi ár eftir ár.

Þetta markar því upphaf tíma sem mér finnst ofboðslega skemmtilegur – jólabaksturinn á undan aðaljólabakstrinum!

Ég byrjaði þetta þróunartímabil á því að reyna að ganga í augun á manninum mínum. Hann er nefnilega ekkert svakalega hrifinn af kökum og kruðeríi. Endrum og eins reyni ég samt að útbúa eitthvað sem hann getur ekki staðist.

Þannig fæddust þessar dúllur.

Hann nefnilega elskar möndlur, Bounty og Royal-búðing. Og viti menn – þessar smákökur innihalda allt þetta þrennt!

Þessar kökur eru algjörlega stórkostlegar með kaffi og þó það sé nóg af sykri í þeim þá draga möndlurnar og kókosinn úr sætunni þannig að kökurnar virka ekki jafnsætar og þær eru í raun og veru – sem margir virðast fíla.

Maðurinn er búinn að samþykkja þessar kökur og finnst þær geggjaðar. Vinnufélagarnir voru líka mjög ánægðir með þær þannig að eitthvað hlýt ég að vera að gera rétt!

Gleðilegan undirbúnings-jólasmákökutíma!


Möndlu og kókos kreisíness
Leiðbeiningar
Smákökur
  1. Hitið ofninn í 180°C og takið til 2 ofnplötur. Klæðið þær með smjörpappír, en úr þessari uppskrift fást sirka 45 kökur.
  2. Byrjið á að þeyta smjör, púðursykur og sykur vel saman, eða í um 5 mínútur. Bætið því næst búðingsduftinu, eggjunum og vanilludropum saman við og hrærið vel.
  3. Bætið hveiti, salti og matarsóda saman við og hrærið þar til allt er blandað saman - hér er ekki gott að hræra of lengi.
  4. Búið til litlar (eða stórar) kúlur úr deiginu, raðið á ofnplötur og fletjið út með lófanum. Þrýstið síðan þumlinum í miðjuna og búið til litla holu fyrir fyllinguna.
Fylling
  1. Blandið öllu saman nema heilu möndlunum og súkkulaðinu. Setjið eins og eina teskeið af blöndunni í hverja holu á kökunum. Þrýstið einni möndlu ofan á fyllinguna.
  2. Bakið í 15 til 20 mínútur eða þar til fyllingin er farin að brúnast aðeins. Bræðið súkkulaðið og drissið yfir kökurnar. Þessar klikka seint!

Umsagnir

Umsagnir