Kreppukaka (e. Depression Cake gengur undir ýmsum nöfnum á enskri tungu, til að mynda Wacky Cake (Flippuð kaka) og Crazy Cake (Brjáluð kaka). Þessi ofureinfalda kökuuppskrift á sér ríka sögu og hefur gengið manna á milli síðan í Kreppunni miklu sem skall á haustið 1929.
Kreppukakan varð til þegar að skortur varð á ýmsum vörum, svo sem eggjum, smjöri og mjólk. Þóttu þetta lúxusvörur um tíma og einungis vellauðugt fólk sem hafði efni á slíkum munaði. Upptök Kreppunnar miklu má rekja til eins dags seint í október árið 1929 þegar að hrun varð á verðbréfamarkaði, en sá dagur er oftast kallaður svarti þriðjudagur. Þá brugðust margar þjóðir við með því að leggja á innflutningstolla og á mörgum stöðum víða um heim var tekin upp jafnvirðisverslun milli landa. Þá mátti ekki flytja inn vörur nema jafnmikið af vörum væri keypt af heimamönnum.
Þessi mikla kreppa hafði víðtæk áhrif. Alþjóðaviðskipti minnkuðu, fólk hafði talsvert minna á milli handanna og uppbygging á hagvöxtur staðnaði nánast alveg í ýmsum löndum. Landbúnaðurinn fékk á sig mikið högg, sér í lagi vegna þess að verðið sem fékkst fyrir afurðirnar hrundi.
Eins og oft þegar að mikið gengur á og hart er í búi, virkjast sköpunargleði fólks. Fólkið sem átti létta pyngju bjó til Kreppukökuna fyrrnefndu, en í raun eru til margar mismunandi útgáfur af kökunni. Allar eiga útgáfurnar það sameiginlegt að innihalda einföld hráefni, sem voru á flestra færi á þessum erfiðu tímum.
Kreppukakan kemur til að mynda fyrir í bókinni How to Cook a Wolf frá árinu 1942, í miðri seinni heimsstyrjöldinni, eftir virta bandaríska rithöfundinn Mary Frances Kennedy Fisher. Hún fæddist árið 1908 og lést árið 1992 og skrifaði 27 bækur á ferlinum. Í How to Cook a Wolf rifjar hún upp sína upplifun af matarskorti í fyrri heimsstyrjöldinni, sem lauk árið 1918, og því má leiða að því lýkur að kreppukakan sé mun eldri en Kreppan mikla, þó hún dragi nafn sitt af því tímabili. Í bókinni skrifar Fisher:
„Einu sinni í síðasta stríði, þegar að búið var að skammta sykur og smjör það lengi að strangheiðarlegar, ungar húsmæður voru á barmi taugaáfalls, sat amma mín og prjónaði og hlustaði á hóp af spenntum húsmæðrum tala stoltar um ýmsar leiðir til að búa til köku á sparsaman hátt. Að sjálfsögðu fannst hverri þeirra fannst sín uppgötvun best og héldu því fram að púðursykur eða melassi í bland við matarsóda væri mun betri en hvítur sykur, eða ef maður notaði nóg af kryddum að þá gæti maður notað beikonfitu í staðinn fyrir smjör eða að egg væri fullkomlega óþarfi.“
Hvað sem því líður þá hef ég búið til mín eigin kreppuköku, en svindlaði þó smá með kreminu. Því mætti segja að ég hafi búið til kreppuköku, sem oftast var ekki borin fram með kremi, með góðæriskremi.
Ég vil samt taka fram að það eru engin ofboðslega glæsileg innihaldsefni í kreminu, en þó er smjör í því sem gæti í alvarlegri og djúpri kreppu orðið munaðarvara.
|
|
- 1 1/2bolli hveiti
- 3/4bolli sykur(hér má minnka sykurmagnið í 1/2 bolla eða auka það í 1 bolla)
- 1/4bolli kakó
- 1/2tsk salt
- 1 tsk matarsódi
- 1tsk vanilludropar
- 1msk sítrónusafi(eða edik)
- 1/3bolli olía
- 1 bolli vatn
- 115g mjúkt smjör
- 1bolli flórsykur
- 1/2tsk vanilludropar
- 1/2 espresso-skot(ca 5 matskeiðar)
- 100g brætt súkkulaði
- Takið til lítið, hringlaga form, sirka 18 sentímetra stórt, og smyrjið það með olíu. Hitið ofninn í 180°C.
- Blandið öllum þurrefnum saman í skál. Blandið síðan vanilludropum, sítrónusafa, olíu og vatni saman við.
- Hellið í formið og bakið í um 30 mínútur. Leyfið kökunni alveg að kólna áður en kremið er sett á.
- Byrjað skal á því að bræða þessi 100 grömm af súkkulaði, en ég notaði dökkt súkkulaði. Hægt er að bræða það yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Ef notuð er seinni aðferðin þarf að bræða það í 30 sekúndur í senn, hræra og endurtaka þar til súkkulaðið er bráðnað. Nú þarf súkkulaðið svo að kólna lítið eitt svo það bræði ekki smjörið.
- Með kremið, til að ná því silkimjúku þá skal byrja á að þeyta smjörið rækilega í 3 til 5 mínútur, þar til það er létt og ljóst.
- Síðan er flórsykri og vanilludropum blandað saman við. Þá er kaffinu blandað saman við og loks súkkulaðinu. Smurt yfir kökuna og síðan má borða þessa köku upp til agna.