Sko, mér finnst allt sem ég baka alveg sjúklega gott og skammast mín ekkert fyrir að segja það! En þessi karamellu- og súkkulaðibomba sprengir alla skala!

Þetta er ein af þeim kökum sem er eiginlega ekki hægt að lýsa með orðum. Hún er svo góð að ég þarf helst að sitja ein inní myrku herbergi, sem alsett er kertaljósum og nýt hvers einasta munnbita. Þetta er nánast eins og að vera í leiðslu að borða þessa súkkulaðibombu með dásamlega þykkri og djúsí karamellu. Súkkulaðibomba er sko nafn með renntu!

Þetta er alls ekki flókin kaka en maður þarf smá að nostra við hana. Botninn er í raun bara brúnka, sem er svo sem ekkert bara því brúnkur gætu komið á friði í heiminum, svo góðar eru þær. Þannig að ef þið nennið ekki að dunda við karamelluna, þá bara bakið þið brúnku á nokkrum mínútum með aðeins fimm hráefnum. Jebb, það þarf bara fimm hráefni í þessa brúnku, eina skál, einn písk og auðvitað kökuform og ofn.

En mig langar samt að biðja ykkur um að dunda við karamelluna. Og ástæðan er einföld – ein og sér er hún himnesk, en pöruð saman við brúnkuna fer hún eitthvað langt, langt út í geim. Svo er punkturinn yfir i-ið súkkulaðibráð alsett karamellukurli. Trúiði mér núna þegar ég segi að þessi súkkulaðibomba sprengi alla skala?

Ég vona að ég sé búin að sannfæra ykkur um að baka þessa himnasælu. Þessi kaka er rosalega bragðmikil og þung, þannig að ein sneið er feykinóg. En samt langar manni í meira. Og meira og meira! Þannig borðaði ég þar til mér var óglatt, sem var svona gott vont. En ég mæli ekki með því. Bjóðið bara frekar einhverjum dásamlegum í kaffi og gerið fólk orðlaust af sælu!

Það er fátt betra en þessi kaka!

P.s. Ef þið viljið hefðbundnari súkkulaðiköku, þá mæli ég með þessari hér.


Karamellu- og súkkulaðibomba sem sprengir alla skala
Hráefni
Brúnka
Karamella
Súkkulaðibráð
Leiðbeiningar
Brúnka
  1. Hitið ofninn í 175°C og takið til hringlaga smelluform, sirka 18 sentímetra stórt. Klæðið botninn með smjörpappír og smyrjið formið líka vel.
  2. Setjið súkkulaði og smjör í skál og bræðið saman í örbylgjuofni í 30 sekúndur í senn. Munið að hræra vel í blöndunni eftir hvert holl. Leyfið súkkulaðismjörinu að kólna í 5 mínútur þegar allt er bráðnað saman.
  3. Þeytið egg og sykur með písk þar til blandan er þykk og ljósgul og minnir helst á búðing.
  4. Blandið súkkulaðismjörinu varlega saman við með písknum. Blandið síðan hveitinu saman við. Ekki þeyta of lengi því þá verður kakan seig, bara rétt þar til allt er blandað saman.
  5. Hellið deiginu í formið og bakið í um 20-25 mínútur. Leyfið kökunni að kólna alveg við opinn glugga áður en karamellunni er hellt yfir.
Karamella
  1. Setjið öll hráefni í pott yfir meðalhita og hrærið stanslaust þar til sykurinn er bráðnaður og smjörið.
  2. Látið koma upp létta suðu og leyfið blöndunni að sjóða í um 6 mínútur, eða þar til hún er byrjuð að þykkna. Munið að hræra stanslaust í blöndunni því hún er fljót að brenna við ef henni er ekki sinnt.
  3. Hellið karamellunni yfir brúnkuna og kælið.
Súkkulaðibráð
  1. Setjið súkkulaði og mjólk í skál og bræðið saman í örbylgjuofni í 30 sekúndur í senn. Munið að hræra vel í blöndunni eftir hvert holl.
  2. Hellið súkkulaðibráðinni yfir karamelluna og skreytið með karamellukurli. Leyfið kökunni að kólna í ísskáp í um það bil klukkustund áður en hún er borin fram. Rennið hníf meðfram kökuforminu áður en kakan er tekin úr því.

Umsagnir

Umsagnir