Ég elska piparmyntu. En ég elska líka karamellu. Hvernig væri að sameina þessar tvær bragðtegundir og leyfa þeim að eignast dísætt og dásamlegt barn saman? Jú, nefnilega bara fjári góð hugmynd!
Þessi uppskrift er ofboðslega einföld, eins og flest allt á Blaka, og útkoman er silkimjúk og ljúffeng bollakaka. Tilvalin gjöf fyrir þann sem allt á því þessar renna alveg einstaklega ljúflega niður með kaffinu.
Ég var með aðstoðarkokk þegar ég bjó þessar til – sex ára dóttur mína hana Amelíu og fékk hún að skreyta nokkrar með frændsystkinum sínum. Ég er því miður ekki með nógu góðar myndir af sköpunarverkunum þeirra en þið hafið það bak við eyrað að það er tilvalið að leyfa krökkunum að taka þátt í bakstrinum – börnin elska þetta!
Karamellu- og piparmyntu bollakökur
|
|
Hráefni
Kökur
- 70g mjúkt smjör
- 3 1/2dl Kornax-hveiti
- 2 3/4dl sykur
- 1tsk lyftiduft
- 1/2tsk salt
- 200ml mjólk
- 1tsk piparmyntudropar
- 2 Nesbú-egg
- 75ml karamellusósa
Krem
- 4dl flórsykur
- 75g mjúkt smjör
- 25ml mjólk
- 1tsk piparmyntudropar
- 75-100ml karamellusósa
Leiðbeiningar
Kökur
- Hitið ofninn í 170°C og takið til 12-16 bollakökuform.
- Blandið smjöri, hveiti, sykri, lyftidufti og salti saman í skál.
- Blandið mjólk, piparmyntudropum og eggjum vel saman í annarri skál.
- Blandið mjólkurblöndunni varlega saman við hveitiblönduna þar til allt er vel blandað saman. Blandið síðan karamellusósunni vel saman við.
- Deilið deiginu á milli formanna og bakið í 20-25 mínútur. Leyfið kökunum að kólna alveg áður en kremið er sett á.
Krem
- Þeytið smjörið í ca 2 mínútur og bætið síðan flórsykrinum út í.
- Blandið restinni af hráefnunum saman við og skreytið kökurnar. Athugið - hér er hægt að nota minna eða meira af piparmyntudropum, allt eftir smekk.