Þarf alltaf að vera sérstök jólakaka? Svarið er einfalt: já!

Að þessu sinni ákvað ég að reyna að búa til köku sem minnir á heitt súkkulaði, sem er klárlega einn besti fylgifiskur jólanna.

Ég á ofboðslega kærar jólaminningar af móður minni á aðfangadagskvöld sem hafði alltaf orku í að búa til heitt súkkulaði fyrir okkur systurnar þegar að pakkaæðið á aðfangadagskvöld var búið og allir í miklu spennufalli. Þá var fátt betra en bolli af rjúkandi heitu súkkulaði með nóg af rjóma.

Þessi kaka færir mig aftur í þessar æskuminningar en ég blandaði líka nútímanum við með nóg af sykurpúðum, sem ég hafði ekki hugmynd um að væru til í barnæsku minni.

Við erum að tala um rosalega súkkulaðiköku sem inniheldur heitt kakó, dúnmjúkt smjörkrem, súkkulaðibráð og fisléttir sykurpúðar. Hver sneið er eins og partí í munninum!

Hafið það ofboðslega gott þessi jól og verið góð við þá sem standa ykkur næst. Reynið að njóta litlu stundanna. Þær eru oft bestar.

Gleðileg jól!


Jólakaka Blaka árið 2023
Hráefni
Kakan
Krem
Leiðbeiningar
Kakan
  1. Hitið ofninn í 180°C og takið til tvö hringlaga form, ca 20 sentímetra stór. Smyrjið formin með smjöri eða olíu og setjið smjörpappír í botninn.
  2. Blandið kakói og heita kakóinu saman í lítlli skál og setjið til hliðar. Þeytið egg, smjör, súrmjólk og vanilludropa saman í stórri skál. Hér er gott að þeyta í nokkrar mínútur.
  3. Blandið kakóblöndunni varlega saman við og hrærið á meðan. Blandið hveiti, sykri, lyftidufti og salti saman við og blandið bara þar til allt er blandað saman. Ekki hræra of mikið hér.
  4. Skiptið deiginu á milli formanna og bakið í 25-30 mínútur. Leyfið kökunum að kólna alveg áður en kakan er sett saman og skreytt.
Krem
  1. Þeytið smjörið í 5-6 mínútur. Blandið flórsykrinum saman við og hrærið í aðrar 5 mínútur til viðbótar. Hellið súkkulaðinu saman við í mjórri bunu og hrærið vel. Bætið því næst vanilludropunum saman við og hrærið. Því meira sem þið hrærið því mýkra verður smjörkremið. Ef ykkur finnst það of þykkt má bæta við smá rjóma.
  2. Setjið annan kökubotninn á disk og smyrjið vel af kreminu ofan á hann. Setjið hinn kökubotninn ofan á og þekið alla kökuna með vel af kreminu.
Súkkulaðibráð
  1. Setjið rjómann í pott eða skál. Hitið vel á helluborði eða í örbylgjuofni en passið að rjóminn sjóði ekki.
  2. Slökkvið á hitanum og brytjið súkkulaðið út í rjómann. Látið standa í um mínútu og hrærið síðan vel þar til allt súkkulaði er bráðnað.
  3. Mér finnst best að setja bráðina í sprautupoka og sprauta henni meðfram brún kökunnar með mismiklum krafti svo mislangir taumar renni niður kökuna.
  4. Setjið slatta af sykurpúðum ofan á kökuna. Mér finnst best að nota pínulitla sykurpúða. Skreytið með kökuskrauti og verði ykkur að góðu!

Umsagnir

Umsagnir

This entry was posted in Kökur.