Ég ákvað að byrja konfektgerðina fyrir jólin snemma í ár til að vera ekki á haus þegar korter er í jól og allt sem því fylgir.

Ég er búin að vera að skiptast á nammi við útlendinga síðasta rúma árið eða svo í gegnum ferðasíðu sem ég og maðurinn minn rekum, Must See in Iceland. Ég hef fengið nammi frá alls kyns löndum, til dæmis Dúbaí, Hollandi, Sviss, Japan, Kanada og Ítalíu. Mest hef ég þó skipst á við Bandaríkjamenn og er alltaf jafn hissa á að sjá hvað er ótrúlega mikið til af sælgæti þar vestan hafs.

Í síðustu skiptum fékk ég nammi sem heitir Honeycomb, sem gæti þá fengið eitthvað ógirnilegt nafn á íslensku eins og til dæmis vaxkaka. Þetta er stökkt nammi með hunangsbragði en þegar maður byrjar að gæða sér á því þá breytist þetta í eins konar karamellu sem er fjandanum erfiðara að ná úr tönnunum. En það skiptir engu máli, ég væri til í að reyna að skrapa þetta úr tönnunum alla daga, svo gott er þetta nammi.

Ég vissi því strax að ég yrði að reyna að endurgera þetta heima í eldhúsinu þar sem Honeycomb vex ekki á trjám hér á Íslandi. Þá hófst leitin að uppskrift að þessu góðgæti. Þegar ég fann hana tók ég til við að reyna við þetta himnaríki og það tókst svona líka vel. Eina vandamálið er að ég borða alltof, alltof mikið af þessu rugli!

Það er nefnilega rosalega einfalt að búa til Honeycomb. Eftir mikinn lestur um Honeycomb á netinu sá ég að margir súkkulaðihúða það líka en ég sleppti því að þessu sinni. Mér finnst þetta nefnilega bara standa alveg fyllilega fyrir sínu án súkkulaðis. En það er náttúrulega matsatriði.

Ég mæli með því að þið prófið að búa til þetta hunangsgott – þið sjáið ekki eftir því.


Honeycomb: Nýja uppáhalds konfektið mitt
Hráefni
Leiðbeiningar
  1. Byrjið á því að taka ykkur til ofnplötu og klæða hana með smjörpappír.
  2. Blandið hunangi, sírópi og sykri saman í stórum potti, þar sem blandan á eftir að freyða vel. Bleytið uppí blöndunni með vatni þar til hún er ekkert þurr lengur. Ég þurfti að nota sirka 3 til 4 matskeiðar af vatni til að ná þessu. Penslið síðan sykurinn af hliðum pottarins þannig að hliðarnar séu alveg hreinar.
  3. Kveikið á hellunni og hafið hitan háan. Ekki hræra neitt í blöndunni. Ef þið eruð með hitamæli þá á blandan að ná 300°F. Ég notaði ekki hitamæli og lét þetta malla þar til blandan náði ljósbrúnum lit - þá er hún tilbúin.
  4. Þá takið þið pottinn af hellunni og hafið hraðar hendur. Blandið matarsódanum saman við og þeytið duglega með písk. Hér mun blandan freyða mjög mikið þannig að passið ykkur.
  5. Hellið blöndunni á ofnplötuna og leyfið þessu að kólna í um klukkustund. Síðan brjótið þið þetta í bita og byrjið gúfferíið.

Umsagnir

Umsagnir