Það er við hæfi að enda mánuðinn á svo góðri köku að maður getur ekki annað en slegið í gegn þegar að gesti ber að garði. En það er líka allt í lagi að hræra í hana, til dæmis á mánudagseftirmiðdegi, fyrir bara sig. Ég dæmi ykkur sko ekki ef þið gerið það því þessi kaka er svo mikið dúndur.
Þetta er í grunninn bara heit súkkulaðikaka sem margir kannast við en í staðinn fyrir að það velli út úr henni yndismjúkt súkkulaði þá er Oreo-búðingur í miðjunni sem er dásamlega mjúkur undir tönn.
Og já, var ég búin að minnast á að þessi kaka er svo rosalega einföld að þú getur næstum því gert hana blindandi?
Heit súkkulaðikaka með Oreo-fyllingu
|
|
Hráefni
Kaka
- 100g 56% súkkulaði, grófsaxað
- 3/4bolli léttmjólk
- 1/2bolli Kornax-hveiti
- 1tsk lyftiduft
- 2msk olía
Búðingur
- 1/4bolli vanillubúðingsduft
- 1/2bolli léttmjólk
- 2 Oreo-kex, grófsöxuð
Leiðbeiningar
Kaka
- Hitið ofninn í 180°C og smyrjið 4 lítil form með olíu. Dustið síðan hveiti í formin svo kökurnar festist örugglega ekki við formið.
- Setjið súkkulaði og mjólk í skál og inn í örbylgjuofn í 50 sekúndur, eða þar til súkkulaðið er bráðið. Hrærið vel saman.
- Blandið hveiti, lyftidufti og olíu saman við súkkulaðið og setjið til hliðar.
Búðingur
- Blandið dufti og léttmjólk saman og látið standa í 1 mínútu.
- Blandið síðan Oreo-kexinu saman við með skeið. Búðingurinn ætti að vera frekar þykkur.
- Hálffyllið formin með súkkulaðiblöndunni og setjið síðan 2 matskeiðar af búðingi í miðjuna. Dreifið restinni af súkkulaðiblöndunni yfir búðinginn og passið að hylja hann alveg.
- Bakið í 17-18 mínútur eða þar til toppurinn er bakaður.
- Setjið disk ofan á formið og snúið því hratt við. Kakan ætti að losna og þegar þið skerið í hana ætti búðingurinn að vella út. Þessa verður að borða þegar hún er ylvolg og helst með rjóma.