Nutella er tiltölulega ný ástríða í mínu lífi. Ég fékk það aldrei sem barn eða unglingur, heldur bara eitthvað ógeðslegt súkkulaðismjör sem ég var aldrei hrifin af.
Eftir að ég eignaðst börn hefur Nutella ávallt verið til á mínu heimili, en að sjálfsögðu bara notað á tyllidögum og þá ofan á vöfflur eða pönnukökur. Ég hef einnig notið þess að prófa mig áfram með Nutella í bakstri og fór alveg fram úr mér þegar ég notaði Nutella til að heimagera Ferrero Rocher-konfektið, en sú uppskrift er í bókinni minni, Minn sykursæti lífsstíll.
Um helgina ákvað ég að skella í Nutella-bollakökur og sá svo sannarlega ekki eftir því. Ég fékk fólk í brönsj og má segja að bollakökurnar hafi runnið út eins og heitar lummur; elskaðar af jafnt börnum sem fullorðnum.
Ég hef líka tekið eftir því að ef ég geri eitthvað með Nutella þá næ ég alltaf að lauma nokkrum hnetum í mixið, eitthvað sem börnin mín vanalega hata en borða með bestu lyst ef Nutella er með. Ofan á þessar bollakökur setti ég saxaðar möndlur sem ég dustaði með gulldufti, en þið að sjálfsögðu ráðið því hvernig þið skreytið þær.
Góðar Nutella-stundir!
|
|
- 1 1/2bolli hveiti
- 1/2bolli gott kakó
- 1/2tsk matarsódi
- 1/2tsk salt
- 3/4bolli sykur
- 1/2bolli púðursykur
- 115g mjúkt smjör
- 2 egg
- 1 1/2tsk vanilludropar
- 3/4bolli AB mjólk
- 1/4bolli vanillumjólk
- 70g mjúkt smjör
- 1bolli Nutella
- 3-4bollar flórsykur
- 1tsk vanilludropar
- 1/2tsk sjávarsalt
- 2-3msk rjómi
- Hitið ofninn í 175°C og takið til sirka 18 möffinsform.
- Blandið hveiti, kakói, matarsóda og salti saman í lítilli skál og setjið til hliðar.
- Þeytið smjör, sykur og púðursykur saman í annarri skál. Bætið eggjunum saman við, einu í einu.
- Blandið vanilludropum, AB mjólk og vanillumjólk saman við og hrærið vel.
- Blandið þurrefnunum saman við þar til allt er blandað saman - passið að blanda ekki of mikið, bara rétt þar til allt er blandað saman.
- Deilið deiginu á milli formanna og bakið í 15 til 20 mínútur. Leyfið að kólna áður en kremið er sett á.
- Þeytið smjörið í 3-5 mínútur, eða þar til það er létt og ljóst. Blandið Nutella vel saman við.
- Blandið flórsykri saman við smátt og smátt og smakkið til. Bætið vanilludropum og salti saman við og hrærið. Bætið smá rjóma saman við ef kremið er of þykkt.
- Skreytið kökurnar með kreminu og öðru sem þið teljið passa þessum guðdómlegu bollakökum.