Úff. Ég veit ekki alveg hvort ég finni réttu orðin til að lýsa þessum unaði. Elskaður piparkökur? Elskarðu Ballerina-kex? Elskarðu tryllt krem? Nú, þá er þetta kakan fyrir þig!
Kakan sjálf er innblásin af piparkökum en ég ákvað að fylla hana með Ballerina-piparkökum til að gera hana krönsjí og djúsí. Svo er uppistaðan í kreminu brúnað smjör en ef þið kunnið ekki að brúna smjör getið þið séð uppskriftina hér.
Ég notaði frekar lítið form – átján sentímetra hringlaga form, og ég mæli ekki með því að þið notið stærra form. En minna ætti að sleppa. Gangi ykkur vel og verði ykkur að góðu!
Geggjuð kaka fyllt með Ballerina-piparkökum
|
|
Hráefni
Kakan
- 115g mjúkt smjör
- 2/3bolli púðursykur
- 1 Nesbú-egg
- 1/3bolli síróp
- 1 2/3bolli Kornax-hveiti
- 1/2tsk matarsódi
- 1tsk engifer
- 1/2tsk kanill
- 1/4tsk múskat
- 1/4tsk negull
- 8-10 Ballerina-piparkökur
Kremið
- 100g brúnað smjör
- 2-3bollar flórsykur
- 1tsk vanilludropar
- 4-5msk rjómi
Leiðbeiningar
Kakan
- Hitið ofninn í 180°C og smyrjið hringlaga, 18 sentímetra form.
- Blandið smjöri og púðursykri vel saman. Bætið því næst sírópinu og egginu saman við.
- Blandið restinni af hráefnunum saman í annarri skál og blandið þeim síðan varlega saman við smjörblönduna.
- Setjið helminginn af deiginu í formið. Það er frekar þykkt þannig að það er gott að nota sleikju til að dreifa því vel í botninn.
- Raðið Ballerina-kexköktum ofan á deigið í einfaldri röð en passið að setja kökurnar ekki alveg við brúnir formsins. Þrýstið kexkökunum aðeins ofan í deigið.
- Hellið restinni af deiginu ofan á kexkökurnar og bakið í 18 til 22 mínútur.
Kremið
- Brúnið smjör og hellið því í skál og leyfið því að kólna.
- Blandið flórsykrinu saman við smjörið og því næst vanilludropunum.
- Blandið einni matskeið af rjóma í einu saman við smjörblönduna þar til kremið er orðið eins þunnt og þið viljið.
- Smyrjið kreminu yfir kalda kökuna og njótið í botn.