Ég held áfram að leika mér í smákökubakstri fyrir jólin og ég get með sanni sagt að þessar kökur hafi verið óvænti hittarinn fyrir þessi jól.
Við erum að tala um æðislegar smákökur með frostþurrkuðum jarðarberjum og hvítu súkkulaði. Meira að segja heimilisfólkinu sem fílar ekki jarðarber elskuðu þessar! Frostþurrkuðu jarðarberin gefa æðislegt bragð, smá sætt, smá súrt – algjör himnasæla í bland við hvíta súkkulaðið.
Nú hef ég átt krukku af frostþurrkuðum jarðarberjum í einhvern tíma, en krukkuna keypti ég í Færeyjum af öllum stöðum. Ég er því ekki alveg með það á hreinu hvar er best að kaupa þessa snilld hér heima, en ég nota frostþurrkuð jarðarber og hindber til dæmis mikið þegar ég bý til konfekt. Því mæli ég með þessu lostæti ef þið sjáið það. Eins og með margt annað er auðvitað hægt að frostþurrka ber heima en það er ansi mikið vesen.
En nóg um frostþurrk, sem er eitt mest óspennandi orð í íslenskri tungu.
Hér koma kökurnar – þær svíkja engan.
|
|
- 3bollar hveiti
- 1tsk lyftiduft
- 1 1/2tsk matarsódi
- 1tsk salt
- 225g smjör
- 1 1/2bolli púðursykur
- 1/2bolli sykur
- 2 egg
- 2tsk vanilludropar
- 1/2bolli frostþurrkuð jarðarber(söxuð)
- 225g hvítt súkkulaði(saxað)
- Blandið hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti saman í stórri skál.
- Bræðið smjör í meðalstórum potti yfir meðalhita. Takið af hellunni þegar bráðnað og blandið púðursykri og sykri saman við. Kælið lítið eitt og blandið eggjunum saman við, einu í einu.
- Blandið smjörblöndunni við þurrefnin og blandið saman.
- Blandið jarðarberjum og súkkulaði varlega saman með sleif eða sleikju.
- Setjið plastfilmu yfir skálina og kælið í ísskáp í að minnsta kosti klukkustund.
- Hitið ofninn í 175°C og setjið smjörpappír á ofnplötur.
- Búið til litlar kúlur úr deiginu og raðið á plöturnar. Fletjið lítið eitt út með lófanum.
- Bakið í 8 til 10 mínútur og leyfið kökunum að kólna aðeins áður en þær eru étnar upp til agna.